144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

viðurlög við brotum á fjármálamarkaði o.fl.

622. mál
[16:15]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ef ég man rétt þá eru Íslendingar aðilar að tvenns konar samningum sem leggja á herðar okkar skyldur til þess að leiða í lög vernd fyrir þá sem ljóstra upp upplýsingum sem horfa til almannaheilla. Það er GRECO-samningurinn og það er UNCAC-samningurinn, minnir mig að hann heiti, sem er samningur Sameinuðu þjóðanna, ég veit ekki betur en að við séum aðilar að honum. Hann segir alveg fortakslaust að þær þjóðir sem eru aðilar að honum eigi að innleiða í sinn rétt slík ákvæði.

Mig langar til þess að spyrja hv. þingmann, af því að hann þekkir það betur en ég, hann fór hér með langt og skýrt mál um GRECO-samninginn, er það ekki rétt munað hjá mér að sá samningur varði aðallega opinbera starfsmenn? Mig minnir það en ef hv. þingmaður veit það þá þætti mér gott að hann segði mér af því.

Ég held að hvað eina sem horfir til bóta í þessu sé gott. Við þurfum ekkert að finna upp hjólið, það hefur verið fundið upp erlendis. Það liggur eiginlega fyrir skapalón, bæði af hálfu Evrópuráðsins og mjög samsvarandi leiðbeiningar um hvernig eigi að setja upp slík lög í samþykkt sem Evrópuþingið lagði frá sér 2013 um haustið, ef ég man rétt. Fordæmin eru því fyrir hendi, við getum leitað þangað.

Sum þeirra laga sem ég hef verið að vísa til eru ekki sniðin beinlínis að þörfum fjármálamarkaðarins, t.d. eru sænsku lögin mjög víðtæk. Þau fela í sér almenna vernd gagnvart uppljóstrurum og þeim sem koma á framfæri slíkum upplýsingum sem gætu hugsanlega skaðað þá og veita mjög sterka vernd varðandi nafnleynd, eins og ég held að ég hafi sagt hér frá í einhverjum af ræðum mínum. Jafnvel ríkisstjórnin má ekki vita nöfn þeirra ef þeir svo kjósa sjálfir.

Telur þá ekki hv. þingmaður að það sé rétt, ef afgreiða á þessi lög núna, að taka a.m.k. inn þó ekki væri nema (Forseti hringir.) ófullkomin ákvæði? Þau eru samt betri en engin og þá er búið að marka leiðina inn í framtíðina.