144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

viðurlög við brotum á fjármálamarkaði o.fl.

622. mál
[16:24]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég held að þetta tengist einmitt inn á hina breiðu umræðu sem hefur verið hérna í dag og kemur kannski inn á aðhald samfélagsins í þessum málum, að við sem samfélag hreinlega gerum sterkari kröfur til þess að þeir sem brjóta af sér á þessu sviði, sem veltir náttúrlega gígantískum fjárhæðum oft, að við sem samfélag setjum fram þá kröfu að þeir sem gerast brotlegir sæti viðurlögum við því.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort ég skilji hann rétt að honum finnist að hér þurfi að skrifa þetta skýrar í lögin. Og varðandi upphæðirnar, telur hv. þingmaður að það nægi ekki að hafa þetta bil að lágmarki eða hámarki? Skil ég hv. þingmann rétt að við þurfum jafnvel að hafa einhver fleiri viðmið þar inni fyrir þá sem eiga síðan að beita viðurlögunum? Eða er ég hreinlega að misskilja þingmanninn þegar þar að kemur?