144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

viðurlög við brotum á fjármálamarkaði o.fl.

622. mál
[16:35]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel að það sé möguleiki á því, jafnvel þó að menn ætli sér að vinna þetta frumvarp hratt og ljúka því á þessu vori, sem ég tel ástæðu til, að ná inn í frumvarpið breiðum meginreglum sem kveða á um vernd uppljóstrara. Ég er viss um að með aðstoð manns eins og fyrrverandi formanns Lögmannafélagsins, hv. þm. Brynjars Níelssonar, sem hefur mikla þekkingu á þessu sviði, væri hægt að negla slíka breiða reglu. Ég tel hins vegar ekki hægt að fara jafn djúpt í það og í Bretlandi. Auðvitað þekki ég þetta ekki út í hörgul, en í Bretlandi eru a.m.k. þrjár opinberar stofnanir sem hafa hlutverk á þessu sviði. Breska fjármálaeftirlitið setti upp fyrir nokkrum árum sérstakt uppljóstraraprógramm sem heitir Whistleblower Program og í kjölfar þess var mjög skarpt ris á tíðni ábendinga. Ég hef þegar sagt hv. þingmanni frá því hér fyrr í dag að 2013 bárust því 3.000 ábendingar. Önnur stofnun sem heitir á ensku, með leyfi forseta, Financial Conduct Authority (FCA), þ.e. stofnun um háttsemi á fjármálamarkaði, sinnir einungis eftirliti með þjónustufyrirtækjum á fjármálasviði. Eftir að hún setti sér ákveðnar reglur í fyrsta skipti um með hvaða hætti menn gætu komið ábendingum á framfæri án þess að skaðast þá jókst fjöldi ábendinga um 2/3. Síðan fékk stofnun sem rannsakar efnahagsglæpi, Serious Fraud Office á ensku, 4.400 ábendingar frá janúar 2012 til júní 2013.

Það er skammt síðan þingnefnd um góða bankahætti lagði til fjölmargar breytingar á þeim reglum sem voru beinlínis hannaðar til þess að vernda uppljóstrara, t.d. koma í veg fyrir að uppljóstrunin tálmaði frama þeirra eða leiddi til brottreksturs. Allar voru teknar upp af eftirlitsaðilunum.