144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

viðurlög við brotum á fjármálamarkaði o.fl.

622. mál
[16:38]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Ég þakka þingmanninum fyrir þessa samantekt. Ég mun fara yfir þetta og við munum ræða áfram í kjölfarið. Nú fer málið til nefndar, mögulega í vikunni. Það þarf að hefjast handa sem fyrst að athuga hvort sé hægt að ná einhverjum atriðum um vernd uppljóstrara þarna inn vegna þess að freistnivandi verður alltaf til staðar. Þegar menn falla í freistni þá skaðast allir, líka sá sem féll í freistni. Það er ekkert gaman. Móðir mín sagði mér einu sinni þegar ég var ungur sögu af manni sem hefði stolið úr fyrirtæki og það hefði komist upp hann og hann hefði framið sjálfsmorð. Þetta sat í mér. Þetta er vont fyrir alla, þetta er vont fyrir landsmenn, þetta er vont fyrir neytendur, þetta er oft vont fyrir fyrirtækin og þetta er vont fyrir einstaklingana sem fremja brotin. Öll þessi brot samansöfnuð geta valdið fjármálahruni sem getur verið vont fyrir efnahagskerfið, það getur verið vont fyrir pólitíska kerfið, það getur leitt til byltingar, það getur leitt til þess að öfgaflokkar komist til valda. Þetta er vont fyrir alla. Þess vegna er ofboðslega mikilvægt að við vinnum hratt og vel og notum öll tækifæri sem við höfum til að koma inn vernd afhjúpenda, vernd uppljóstrara í lög.