144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

viðurlög við brotum á fjármálamarkaði o.fl.

622. mál
[16:39]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er í takt við nýjan tíðaranda. Menn eru farnir að skilja nytsemd þess að beita aðhaldi af þessu tagi. Menn hafa lengi horft til fjölmiðla sem mjög mikilvægs aðhaldstækis. Það er bara á allra síðustu árum sem menn eru farnir að gera sér grein fyrir því hversu mikið aðhald getur falist í leiðum af þessu tagi til þess að skapa fælingu. Þetta hefur mikinn fælingarmátt eins og hv. þingmaður rökstuddi manna best í ræðu fyrr í dag.

Þessum málum hefur fleygt fram síðan 2013. Ég þori ekki að segja hversu mörg ríki hafa nú tekið upp einhvers konar ákvæði í sín lög um vernd uppljóstrara en 2013, því að mínar upplýsingar eru meira og minna síðan þá, voru til dæmis 16 af þeim 27 ríkjum Evrópusambandsins, sem þá voru, búin að taka upp einhvers konar slík ákvæði. Auðvitað voru þau misjafnlega góð, sum hundléleg, en öll skiptu þau máli.

Við vitum það líka að uppljóstrarar hafa í gegnum tímann oft lent í margvíslegum vandamálum. Þeir hafa sætt aðkasti, samanber Snowden á öðru sviði. Innan fyrirtækja hefur þetta margoft leitt til þess að mönnum hefur verið þröngvað úr starfi, ekki beinlínis reknir en í sumum tilvikum hafa þeir verið reknir og komið í veg fyrir að þeir fái eðlilegan framgang. Það sem er svo flott við þessar bresku reglur er að þar er beinlínis búið að setja æðstu stjórnendum í fyrirtækjum á þjónustusviði innan fjármálamarkaðarins og þeim sem höndla með peninga þá kvöð á herðar að tryggja að það sé farvegur innan fyrirtækja til þess að koma ábendingum á framfæri og tryggja um leið að sá sem það gerir sæti engum refsingum og að það komi með engu móti niður á honum. Þetta skiptir máli. Það er stundum sagt að Bretar séu með þróaðasta fjármálakerfi í heiminum. Þeir eru komnir lengst.