144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[17:00]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til nýrra laga um meðferð og sölu eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum sem mun sameina heildstætt þær reglur sem gilt hafa á þessu sviði. Í frumvarpinu eru fyrst og fremst gerðar breytingar á þeim lagaákvæðum sem gilda um Bankasýslu ríkisins, enda er í frumvarpinu gert ráð fyrir að sú stofnun verði lögð niður. Þess má geta að í núgildandi lögum um Bankasýslu ríkisins frá 2009 kemur fram að stofnunin skuli lögð niður eigi síðar en fimm árum frá því að hún er sett á fót og hér er því verið að framfylgja þeim vilja þingsins sem birtist í lögunum frá 2009.

Í samræmi við það sem almennt gildir um eignarhluti í fyrirtækjum sem eru að hluta eða öllu leyti í eigu ríkisins er gert ráð fyrir að fjármála- og efnahagsráðuneytið taki formlega við meðferð umræddra eignarhluta í fjármálafyrirtækjum. Færa má fyrir því veigamikil rök að með tilfærslu verkefna sem nú eru í höndum Bankasýslu ríkisins yfir til ráðuneytisins sé hægt að byggja upp sterkari og öflugri miðlæga eignarhaldseiningu innan ráðuneytisins. Ríkir samfélagslegir hagsmunir felast í því að eignarhaldi allra félaga í eigu ríkisins sé sinnt með markvissum, faglegum og samræmdum hætti. Sú færsla á eignarhaldi sem lögð er til í frumvarpi þessu stuðlar að slíkri uppbyggingu innan ráðuneytisins og yrði mikilvægur liður í því að skipan þessara mála verði með sambærilegum hætti og annars staðar á Norðurlöndunum.

Mikilvægt er að ríkið hagi eigandaákvörðunum sínum með trúverðugum og faglegum hætti. Í ljósi þess er í frumvarpi þessu lagt til að sett verði á laggirnar sjálfstæð ráðgjafarnefnd um fjármálafyrirtæki í ríkiseigu sem verði ráðherra til ráðgjafar á þessu sviði. Sérfróðir aðilar verði skipaðir í nefndina og gerðar ríkar faglegar kröfur til nefndarmanna, en allt þetta er sambærilegt við það sem gildir um stjórn Bankasýslunnar.

Ráðgjafarnefndin verður til ráðgjafar um ýmis verkefni sem heyrðu áður undir Bankasýsluna, einkum vegna atriða er varða eigandastefnu ríkisins, meðferð einstakra eignarhluta og mögulega sölu þeirra. Þá getur nefndin einnig lagt fram tillögur að eigin frumkvæði og óskað eftir upplýsingum um tiltekin mál sem eru til meðferðar.

Þá er gert ráð fyrir að nefndin annist það hlutverk að tilnefna hæfa einstaklinga til setu í stjórnum fjármálafyrirtækja í ríkiseigu. Með þessu er áfram lögð áhersla á armslengdarregluna þar sem faglega verður staðið að vali stjórnarmanna og að félögin og stjórnir þeirra njóti nauðsynlegs sjálfstæðis.

Þrátt fyrir að gert sé ráð fyrir að ráðgjafarnefndin um fjármálafyrirtæki sé að mestu leyti ráðgefandi og umsagnaraðili samkvæmt frumvarpinu er ljóst að slík sjálfstæð ráðgjafarnefnd sérfræðinga mun án efa stuðla að vandaðri stjórnsýslu og ákvarðanatöku við alla umsýslu og ráðstöfun eignarhluta af hálfu ríkisins.

Hvað viðkemur sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum er sérstök athygli vakin á því að frumvarp þetta felur ekki í sér breytingar á þeim lagaramma eða meginreglum sem þegar hafa verið settar í núgildandi lögum um sama efni. Það skal tekið fram að frumvarpið felur ekki í sér að hefja skuli sölumeðferð á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum, heldur kveðið á um að hefja megi sölumeðferð að fenginni heimild frá Alþingi í fjárlögum.

Mikilvægt er að einföld og skýr umgjörð gildi um sölu á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Telja verður að slík umgjörð styrki á allan hátt trúverðugleika ákvarðana um sölu eigna. Þau ákvæði frumvarpsins sem snúa að sölumeðferðinni byggjast áfram á þeirri aðferðafræði sem lagt var upp með í lögum nr. 155/2012, um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Þótt gert sé ráð fyrir því að Bankasýsla ríkisins verði lögð niður munu aðrir taka við hlutverkum hennar við sölumeðferð þessara eigna.

Í frumvarpinu eins og í gildandi lögum er í fyrsta lagi lagt upp með víðtækt samráð við Alþingi við sölu eignarhluta í fjármálafyrirtækjum, í öðru lagi að farið verði eftir skýrum meginreglum við framkvæmd slíkrar sölu og í þriðja lagi þarf ráðherra að loknu söluferli að skila Alþingi vandaðri lýsingu á söluferlinu ásamt skýringum á því hvað réði ákvörðun um samþykki eða höfnun tilboða.

Engar breytingar eru gerðar á því á hversu stórum eignarhluta heimilt er að hefja söluferli. Engar breytingar eru gerðar á þeim meginreglum sem skulu gilda við sölumeðferð eignarhlutanna. Nær engar breytingar eru gerðar á ákvörðun um sölumeðferð og samráðsferlinu sem þarf að hafa eða sölumeðferðinni sjálfri fyrir utan það að Ríkiskaup munu í stað Bankasýslunnar annast formlegt söluferli.

Í frumvarpinu er einnig sérstaklega kveðið á um að Ríkisendurskoðun sem stofnun á vegum Alþingis skuli hafa eftirlit með söluferli eignarhlutanna sem styrkir enn frekar almennt eftirlit með framkvæmd söluferlisins.

Í frumvarpinu er nýmæli um að framvegis verði skylt að setja sérstaka eigandastefnu um eignarhluti ríkisins í fjármálafyrirtækjum sem verði birt opinberlega og stuðlar að auknu gagnsæi. Eigandastefnan er lykiltæki ríkisins til að styrkja umsýslu eignarhluta þar sem settar eru fram fyrirætlanir, markmið og áherslur ríkisins sem eiganda að fjármálafyrirtækjum. Þá mun jafnframt stuðla að auknu gagnsæi að allar stærri ákvarðanir sem tengjast meðferð og sölu eignarhlutanna verða sendar ráðgjafarnefndinni til umsagnar.

Einnig verður áfram viðhöfð sú regla að óháðir aðilar tilnefni stjórnarmenn sem hafi viðhlítandi þekkingu og reynslu til setu í fjármálafyrirtækjum. Með þessu frumvarpi er þar af leiðandi ekki verið að draga úr mikilvægi armslengdarreglunnar.

Helsta breytingin í þessu frumvarpi er að fámenn stofnun á vegum ríkisins er lögð niður, en þess má geta að í stjórn Bankasýslunnar sitja þrír stjórnarmenn og starfsmenn eru tveir auk ritara. Það er sem sagt helsta breytingin að þessi fámenna stofnun verður lögð niður, verkefni hennar að mestu færð til þess ráðuneytis sem nú þegar ber ábyrgð á málaflokknum, ásamt því að komið er á fót ráðgjafarnefnd sem hefur áþekkt starfssvið og stjórn Bankasýslunnar.

Verði frumvarpið óbreytt að lögum mun það jafnframt lækka útgjöld ríkissjóðs vegna sparnaðar á rekstrarkostnaði við að halda uppi lítilli stofnun á vegum ríkisins.

Virðulegi forseti. Að þessu sögðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. fjárlaganefndar og 2. umr. að aflokinni þessari umræðu.