144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[17:11]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Eins og allir handhafar framkvæmdarvalds hefur hæstv. ráðherra líka friðarskyldu. Hann hefur skyldu til þess að reyna að efna til (Gripið fram í.) friðar í samfélaginu og hæstv. ráðherra veit mætavel að þetta (Gripið fram í.) frumvarp gerir ekkert annað en að sá tortryggni (Gripið fram í.) og ófriði í kringum þessi mál.

Það vakti eftirtekt mína að hæstv. ráðherra treysti sér ekki til þess að fullyrða hér í ræðustól að stjórnarliðið stæði á bak við þetta frumvarp. Það er ástæðan fyrir því að ég kem með spurninguna til hæstv. ráðherra. Hann á ekkert að standa í því að tefja og eyða tíma þingsins í mál sem hugsanlega hafa ekki meiri hluta meðal þingflokka stjórnarinnar.

Það er tvennt sem liggur fyrir í þessu máli, í fyrsta lagi að flokksþing Framsóknarflokksins hefur samþykkt mjög skýra ályktun um að ekki eigi að leggja niður Bankasýsluna. Húrra fyrir Framsóknarflokknum í því máli. Sömuleiðis hefur Framsóknarflokkurinn sem er hinn stjórnarflokkurinn, ef það hefur farið fram hjá hæstv. fjármálaráðherra, líka samþykkt ályktun sem er ekki hægt að túlka öðruvísi en svo að það eigi ekki að selja 30% af Landsbankanum.

Hið fyrra dugar alveg til þess að ég ítreki spurninguna: (Forseti hringir.) Hefur hæstv. fjármálaráðherra meiri hluta fyrir þessu í stjórnarliðinu? (LRM: Svaraðu nú.)