144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[17:12]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Það er alveg með ólíkindum að menn geti æst sig yfir jafn einföldu og litlu máli án þess að það komi nein raunveruleg prinsipp hingað inn í umræðuna. Þetta mál er bara eins og önnur stjórnarmál, hv. þingmaður. Það fer í gegnum þingflokka og ríkisstjórn og er komið inn í þingið vegna þess að það nýtur stuðnings á báðum stöðum. Hér er lögð til formbreyting sem felur í sér sparnað og skýrari verkaskiptingu. Hvað er það sem hv. þingmaður er svo hræddur við að gerist með því fyrirkomulagi sem hér er lagt til? (ÖS: Af hverju svarar þú ekki spurningunni …?) Mætti ég biðja hv. þm. Össur Skarphéðinsson að hætta þessum frammíköllum, hætta að þyrla upp moldviðri um ekki neitt (Gripið fram í.) og koma með inn í umræðuna einhver raunveruleg prinsipp sem hann er að reyna að berjast fyrir og standa fyrir? Talað er um að menn eigi ekki að eyða tíma þingsins í vitleysu og þá segi ég nú bara: Um hvað hefur þetta málþóf snúist sem hefur staðið hér yfir í gær og í dag og undanfarna daga? Um smámál. (Gripið fram í.) Það hefur ekki staðið um neitt annað. Þessir þingmenn (Forseti hringir.) verða að gefa mér frið, virðulegi forseti, til (Forseti hringir.) að nýta ræðutímann.

(Forseti (SilG): Ræðutíminn er úti.)

Þetta hefur ekki snúist um neitt annað en að tefja þingstörfin (Forseti hringir.) og æsa upp einhver leiðindi í þinginu. Það er það sem menn eru að gera hér, ekkert annað.