144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[17:14]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Guðlaugur Þór. Mig langar aðeins að spyrja út í ráðgjafarnefndina sem einhvern veginn kemur í staðinn fyrir Bankasýsluna, ef ég skil rétt. Það er talað um það hérna að hún eigi að vera sjálfstæð í störfum sínum þótt hún heyri undir ráðherra og ráðherra skipi alla nefndarmenn. Ég skildi ekki alveg hvort það væri fullt starf eða hvernig það á að vera, en kæmi til greina að auka sjálfstæði þessarar nefndar með því að tilnefna með öðrum hætti? Þá er ég bara að velta fyrir mér hvort gæti verið sniðugt. Er hæstv. ráðherra líka með einhverjum hætti að hugsa um hvernig hægt er að tryggja að sú þekking sem er til innan Bankasýslunnar í dag skili sér áfram, týnist ekki bara? Ég ímynda mér að það sé einhver þekking þar sem skiptir máli.