144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[17:22]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er mjög stórt spurt, en meðal þess sem ég tel að við þurfum að læra af sögunni er að það skiptir máli hverjir fara með eignarhald á bönkum. Það skiptir máli hvernig regluverk um bankastarfsemi er í landinu. Þá var Landsbankinn seldur með rúmlega 6% eiginfjárhlutfall, nú er hann með yfir 20% eiginfjárhlutfall. Hann hafði 16 milljarða í eigið fé, hann hefur 250 í dag. Þetta er allt önnur stofnun, miklu sterkari.

Við höfum styrkt mjög allt lagaumhverfið og erum með ýmsar kvaðir sem Fjármálaeftirlitið getur beitt fjármálafyrirtækin ef það sér einhverjar hættur vera að rísa þannig að við höfum styrkt mjög mikið umgjörðina. En við eigum líka að reyna að draga lærdóm af því hvort það er skynsamlegt að einstaklingar sem eru umsvifamiklir í eigin fjárfestingum fari á sama tíma með kjölfestuhlut í bönkum. Það tel ég ekki góða leið. Við eigum að leggja upp með dreift eignarhald en síðan líka hitt, að ríkið eigi áfram og í framtíðinni að vera stærsti hluthafinn í Landsbankanum.

Það er nú svolítið einkennilegt að vera að ræða þetta hér vegna þess að eignarhald á fjármálafyrirtækjum á Íslandi er eiginlega í algjörri rúst í dag. (Forseti hringir.) Við þurfum að komast út úr þeirri stöðu þar sem tveir af stóru bönkunum eru í hópi andlitslausra hópa kröfuhafa og hafa verið síðan 2009.