144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[17:24]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta var töluvert rætt á síðasta kjörtímabili. Ég hvatti ávallt til þess að menn mundu bara klára þær rannsóknir sem menn teldu að hefðu ekki enn farið fram. En það var aldrei gert af vinstri stjórninni sem vildi samt alltaf hafa þetta í umræðunni.

Ef ég man rétt var þó á endanum samþykkt einhver þingsályktun en henni var auðvitað ekki fylgt eftir með neinu fjármagni. Það kostar einhver hundruð milljóna væntanlega eins og aðrar rannsóknir sem Alþingi hefur sett af stað. Það að rannsaka einkavæðingu Landsbankans sem er orðin meira en tíu ára gömul finnst mér ekki forgangsverkefni dagsins í dag. Ég tel að við höfum allt það sem við þurfum í þekkingu og reynslu til að standa myndarlega að breytingum. Við þurfum hins vegar að ræða í þinginu hvernig við viljum til dæmis að eignarhald ríkisins þróist í Landsbankanum, hversu hratt við eigum að selja ríkið niður og greiða upp með því skuldir, hvernig við eigum að haga okkur varðandi dreifða eignarhaldið og kjölfestufjárfestana og hvort við erum ekki örugglega búin að gera aðrar þær nauðsynlegu lagabreytingar sem (Forseti hringir.) þarf að framkvæma í aðdraganda slíkrar sölu. Okkur er ekkert að vanbúnaði að klára þessa umræðu.