144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[17:27]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég taldi þetta skýrt í mínu fyrra andsvari. Í fyrsta lagi eru þetta orðin mjög gömul mál, í öðru lagi mundi kosta okkur mikla fjármuni að fara í slíka rannsókn og í þriðja lagi finnst mér það ekki tengjast þessu máli beint og hvorki vera forsenda fyrir því að við getum klárað umgjörð um sölu eignarhluta né tekið efnislega ákvörðun um að fara í söluna.

Ég veit ekki alveg hvað hv. þingmaður telur að enn eigi eftir að koma í ljós varðandi sölu bankanna sem Ríkisendurskoðun og þingið hafa margoft kafað ofan í. Ef menn telja það góða ráðstöfun á almannafé að setja nokkur hundruð milljónir í enn eina rannsóknina út af því eldgamla máli efast ég um að ég yrði á já-takkanum.