144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[17:28]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég vil fyrst segja um þetta frumvarp að auðvitað er þetta miklu til muna betri málatilbúnaður en hæstv. ráðherra eða ríkisstjórnin ætlaði að bjóða okkur upp á fyrir áramótin í fjárlagafrumvarpinu. Þá stóð nánast til að leggja þessa stofnun niður með því að klippa af henni fjárveitingar um áramót og henda bara málinu út í tómarúm. Sem betur fer tókst að vinda ofan af því og hæstv. ráðherra var rekinn til baka með það, viðurkenndi reyndar að lokum hér þegar hann fékkst til að ræða málið að þetta hefði kannski ekki verið nógu vel undirbúið og hér er þó komið frumvarp um það í hvaða lagaumgjörð þessi mál eigi að vera í framhaldinu verði Bankasýslan lögð niður. Það er að sjálfsögðu betri málatilbúnaður en lagt var upp með í haust.

Ég er reyndar ósammála þeim rökum ráðherrans sem hann teflir hér fram sem sjálfstæðum og mikilvægum efnisrökum að með þessu sé verið að spara mikla fjármuni og það sé alveg fáránlegt að einhver þriggja manna stofnun með þriggja manna stjórn sjái um þetta verkefni með rekstrarkostnað upp á 50–60 millj. kr. En er það mikið þegar við höfum í huga að þarna er verið að passa upp á 250–300 milljarða eign og þarna er verið að gæta gríðarlegra hagsmuna og vandasamra hluta, eignarhalds í fjármálafyrirtækjum, og að þessi fjármálafyrirtæki greiða ríkinu arð um þessar mundir upp á 20 milljarða plús á ári? Er þá rekstrarkostnaður á einingunni sem heldur utan um þessa hagsmuni upp á kannski 50 milljónir á ári mikill? Nei, það tel ég ekki vera. Þetta er vissulega lítil eining, en þetta eru ekki sterk efnisrök að mínu mati. Það er rétt að það var lagt upp með það að Bankasýslan yrði tímabundið við lýði vegna þess að menn gerðu sér þá eðlilega vonir um að það yrði kominn skýrleiki í framtíðareignarhald ríkisins innan vonandi fimm ára, að kannski héldi ríkið þá eingöngu eignarhlut í einum stórum banka, hugsanlega í einhverjum sparisjóðum. Síðan hafa hlutirnir gengið hægar fyrir sig en menn gátu gert sér vonir um þarna og eignarhald ríkisins er enn óbreytt frá því sem það var þegar leið á árið 2009 og engin sala enn farið fram á einum einasta hlut ríkisins.

Þess vegna finnst mér að eigi að byrja á að velta upp spurningunni: Er tímabært að fara í breytingarnar? Eða eigum við kannski að skoða þann möguleika að framlengja þetta fyrirkomulag sem ég held að enginn geti haldið fram að hafi gefist eitthvað illa? Hvað eigum við þá að giska á að gæti dugað, tvö ár í viðbót, eitthvað svoleiðis? Eftir sem áður stendur að sjálfsögðu að það er íhaldssemi að vera ekki tilbúinn að skoða breytingar og það er ég alveg tilbúinn að gera.

Ég hef efasemdir um að þetta sé tímabært í fyrsta lagi og í öðru lagi að hér sé að öllu leyti nógu vel um þetta búið. Þó að ýmislegt standi eftir af lögunum um Bankasýsluna og lögunum um sölu á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum, því að menn geta skammað fyrri ríkisstjórn fyrir alla skapaða hluti, voru þó sett lög og búið um hvort tveggja í lögum í hennar tíð og það strax á árinu 2009 til að undirbúa það hvernig ríkið héldi á eignarhaldinu. Það gerðu menn í annríki daganna á vordögum 2009 og var þó nóg að sýsla þá.

Það var auðvitað rætt í þinginu, og væri fróðlegt að rifja það aðeins upp, en ég held að það þurfi að skoða mjög vel hluti eins og þá hvort tímabært sé að leggja stofnunina niður. Enn hefur engin sala farið fram á eignarhlutum en samkvæmt lögum hefur Bankasýslan haft það hlutverk með höndum að undirbúa að leggja grunninn að því hvernig að því yrði staðið. Sú þekking á að hafa byggst þar upp. Í öðru lagi er spurningin hvort ráðuneytið sé skipulagslega tilbúið að taka verkefnið í sínar hendur.

Armslengdarsjónarmiðin voru kannski aðalefni umræðunnar vorið 2009 og hvort nægilega væri vel um það búið að pólitískur ráðherra gæti ekki með óeðlilegum hætti beitt valdi sínu gagnvart þessum viðkvæma eignarhaldsþætti. Hér tel ég að armslengdarsjónarmiðin séu veikt og ég ætla að færa fyrir því nokkur rök, frú forseti. Það eru heldur veikari hæfniskröfur gerðar til ráðgjafarnefndarinnar en eru gerðar til stjórnar Bankasýslunnar í lögunum um hana í dag. Það er að minnsta kosti ekki eins ítarleg upptalning á því hverjir séu ekki hæfir til að sitja í stjórn vegna einhvers sem þeir kunni að hafa aðhafst í fortíðinni. Og nú er engin sjálfstæð valnefnd. Aðalmunurinn er auðvitað sá að í staðinn fyrir sjálfstæða stjórn er komin ráðgjafarnefnd. Á þessu tvennu er grundvallarmunur. Stjórn Bankasýslunnar í dag er mjög sjálfstæð samkvæmt lögunum. Hún er svo sjálfstæð að ráðherrann má engin afskipti hafa af hennar störfum eftir að hann hefur skipað hana nema í gegnum a) að móta eigandastefnu ríkisins sem stjórninni ber að framfylgja, b) að senda henni skrifleg tilmæli sem hún getur þá brugðist við eða svarað. Þau samskipti skulu ganga til eftirlits í tveimur þingnefndum. Þannig er það.

Hvað kemur í staðinn? Ráðgjafarnefnd þar sem ekkert er sagt um boðleiðirnar, þar sem ekkert er sagt um það hvernig samskipti ráðherrans og ráðgjafarnefndarinnar skuli vera, þar sem ekkert er sagt um það hvað eigi að gera ef ágreiningur rís þarna á milli, þar sem ekkert er sagt um á hvaða formi samskipti þarna á milli eigi að vera. Þingið kemur ekkert að eftirliti með því ef ráðherrann og ráðgjafarnefndin eiga einhver samskipti þar sem hugsanlega er ágreiningur á ferð í staðinn fyrir að í núverandi fyrirkomulagi er slíkt sjálfkrafa gert opinbert með næstum hliðstæðum hætti og ef ráðherra Seðlabankans á samskipti við hann skal það gert með slíkum hætti að það verði allt saman opinbert eftir á.

Þetta tel ég mikinn veikleika á málinu eins og frá því er gengið og afturför frá gildandi lögum. Það er munur á sjálfstæðri stjórn og ráðgjafarnefnd. Þegar betur er að gáð og textarnir bornir saman, lög nr. 88/2009, um Bankasýsluna, og frumvarpið hér, er ráðgjafarnefndin í aðalatriðum staðgengill valnefndarinnar. Hún hefur það meginhlutverk fyrir utan almenna ráðgjöf að velja fólk í stjórnir banka og fyrirtækja sem ríkið á eignarhlut í. Því fyrirkomulagi er vissulega haldið, það er valnefnd og á grundvelli tillagna hennar er svo skipað í stjórnina. En auðvitað er þetta fært til ráðherrans í staðinn fyrir að ráðherrann kemur ekkert nálægt því í dag. Í núverandi fyrirkomulagi kemur valnefnd með tillögur til stjórnar Bankasýslunnar sem setur mennina í stjórnir en ekki ráðherra.

Þetta skulum við bara fara yfir nákvæmlega eins og það er. Það er munur á þessu en ég er ekki að segja að eitt sé endilega ótækt og geti ekki gengið. Þetta finnst mér aðalatriði málsins til að ræða hér.

Ég get auðvitað ekki annað, frú forseti, en aðeins gripið niður í afstöðu nokkurra þingmanna Sjálfstæðisflokksins og minni hlutans á Alþingi vorið og sumarið 2009.

Hverjar voru megináhyggjur þeirra?

Ólöf Nordal, núverandi innanríkisráðherra, tók þátt í 1. umr. um málið 22. júní 2009 og hverjar voru hennar efasemdir? Hún sagði eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Hins vegar hef ég efasemdir um að nógu langt sé gengið í því að aðskilja fjármálaráðuneytið frá þessari stofnun í þeirri skipun sem þarna er á ferðinni. Ég held að það sé bráðnauðsynlegt að menn velti því fyrir sér hvort svo sé, hvort það sé alveg tryggt að með þessu sé verið að tryggja að pólitíski veruleikinn sé ekki of nálægt þessari stofnun.“

Þetta var afstaða núverandi innanríkisráðherra. Aðaláhyggjurnar voru að ráðherra væri samt of nærri málinu þó að Bankasýslan væri sett á fót með sjálfstæðri stjórn og valnefnd undir henni sem veldi fulltrúana sem stjórnin setti í bankaráðin og ráðherrann sjálfur mætti ekki koma nálægt einu eða neinu eftir að hann hafði sett stjórn Bankasýslunnar í fyrsta skiptið. Stjórnin var þá skipuð af ráðherra til allra þeirra fimm ára sem stjórnin átti að standa. Ráðherrann sleppti hendinni af málinu daginn sem lögin urðu virk og stjórn Bankasýslunnar hafði verið stofnuð, mátti ekki, gat ekki og hafði ekki nein afskipti af því hvernig með eignarhaldið var farið að öðru leyti. Það kom aldrei til þess að minnsta kosti að ég sem ráðherra þyrfti að beina tilmælum til stjórnar Bankasýslunnar. Einu fyrirmælin sem hún hafði umfram lögin voru eigandastefnan sem var gefin út haustið 2009.

Þetta voru sem sagt áhyggjur innanríkisráðherrans núverandi, þáverandi hv. stjórnarandstöðuþingmanns Ólafar Nordal.

Tryggvi Þór Herbertsson, góðkunningi okkar og vinur, var auðvitað einn af áhrifamestu talsmönnum Sjálfstæðisflokksins í svona málum. Hvað sagði hann meðal annars? Jú, hann vitnaði í texta frumvarpsins og sagði, með leyfi forseta:

„Síðan segir í 2. gr. að fjármálaráðherra skuli skipa stjórn. Það tel ég afar slæmt, það skemmir í raun fyrir megintilgangi stofnunarinnar sem er að tryggja armslengdarsjónarmiðið.“

Tryggvi Þór Herbertsson, talsmaður Sjálfstæðisflokksins í þessum málum, vildi ganga svo langt að ráðherrann mætti ekki einu sinni skipa stjórnina því að þá væru armslengdarsjónmiðin að einhverju leyti fyrir borð borin. Hann velti upp þeim hugmyndum að Alþingi tæki að sér að skipa stjórn og valnefnd til að ráðherrann kæmi bara alls ekki nálægt neinu. Nú kann að vera að afstaða Sjálfstæðisflokksins hafi mótast mjög af því hver var ráðherrann á þessum tíma en þá bara spyr ég: Er það málefnalegt? Er það þannig sem hlutirnir eiga að ganga fyrir sig í pólitíkinni, að löggjöfin eigi að mótast af viðhorfum manna til þess hver fer með einstök embætti þá og þá? Nei, ég ætla sjálfstæðismönnum ekki það þó að ég viti vel að þeim var ekkert öllum, og er ekki enn, hlýtt til mín. Ég ætla þeim að þetta hafi verið málefnaleg afstaða, að þeir hafi haft svona miklar áhyggjur af því að armslengdarsjónarmiðanna yrði ekki nógu vel gætt, að pólitíska valdinu yrði ekki haldið nógu skýrt frá eignarhaldi á bönkum. Ég skil það sjónarmið mjög vel og er því sammála. Vonandi hafa menn lært af reynslunni. Við skulum ekki gleyma því að þarna erum við að tala saman á Alþingi Íslendinga vorið og sumarið 2009 með hrunið á herðunum og hina skelfilegu niðurstöðu af því hvernig menn hegðuðu sér með eignarhald ríkisins á bönkunum í einkavæðingu.

Ég get vitnað í marga fleiri þingmenn Sjálfstæðisflokksins, t.d. hv. þm. Birgi Ármannsson, eða nefndarálit minni hluta viðskiptanefndar sumarið 2009 sem undir skrifa hv. þingmenn Guðlaugur Þór Þórðarson, Margrét Tryggvadóttir, Ragnheiður E. Árnadóttir og Eygló Harðardóttir, sem sagt öll stjórnarandstaðan. Hvað segir þar, með leyfi forseta?

„Nú þegar flestar fjármálastofnanir landsins eru komnar í eigu ríkisins er eðlilegt að fram komi krafa um að fjármálaráðherra hafi ekki bein afskipti af stjórn bankanna. Í samfélaginu er uppi krafa um að ráðherravald verði minnkað. Við fyrstu sýn virðist hlutverk Bankasýslunnar einmitt vera að draga úr ráðherravaldinu, en þegar málið er skoðað nánar má sjá að fjármálaráðherra eru ætluð mikil völd innan stofnunarinnar. Þau völd felast m.a. í því að ráðherra velur þriggja manna stjórn stofnunarinnar sem svo ræður framkvæmdastjóra.“

Sama afstaðan kristallast í niðurstöðuorðum nefndarálits minni hlutans, að þetta fyrirkomulag gangi jafnvel ekki nógu langt í að tryggja að ráðherrann komi hvergi nálægt neinu. Ætlar sama fólk núna, hæstv. innanríkisráðherra Ólöf Nordal og hæstv. félagsmálaráðherra Eygló Harðardóttir, sem er á prenti með þessa afstöðu þarna, að styðja núna við bakið á því að þetta fari alveg í gagnstæða átt? Því að það gerir það.

Jú, hæstv. fjármálaráðherra, það er ekki hægt að neita því að það er veikari umbúnaður um sjálfstæði eignarhaldsins að setja ráðgjafarnefnd í staðinn fyrir stjórn og að láta hverfa út úr lögum allt um boðleiðir milli ráðherrans og ráðgjafarnefndarinnar, auk þess sem ráðgjafarnefnd er ráðgjafarnefnd og stjórn er stjórn. Það er íslenska sem dugar til að skilja muninn þar á.

Ég held að þetta þurfi að skoðast mjög vel. Ég er tilbúinn til þess og er alveg lausnamiðaður gagnvart því að finna gott skipulag á þessu.

Ef tíminn hefði leyft hefði ég farið svolítið yfir það, og geri það kannski í seinni ræðu, að ég hef efasemdir um að fjármálaráðuneytið sé að öllu leyti undir það búið að taka þetta eignarhald að sér, ekki síst vegna þess að fjármálaráðuneytið er líka efnahagsráðuneyti, ráðuneyti fjármálamarkaðarins. Löggjöfin um fjármálamarkaðinn heyrir undir sama ráðuneyti, Fjármálaeftirlitið heyrir undir sama ráðuneyti. Þess vegna er hlutverk fjármála- og efnahagsráðuneytisins í dag miklu vandasamara að þessu leyti en meðan annað sjálfstætt fagráðuneyti fór með löggjöf fjármálamarkaðarins. Það hefði verið minna áhyggjuefni að færa eignarhaldið inn í fjármálaráðuneytið eins og það var 2009 vegna þess að þá heyrði fjármálamarkaðurinn að öðru leyti undir annað ráðuneyti, en hann gerir það ekki í dag.

Að lokum þakka ég hæstv. fjármálaráðherra fyrir klausu í greinargerðinni á bls. 7. Þar segir, með leyfi forseta:

„Ríkið átti í raun aldrei þær eignir og skuldir sem fluttar voru úr gömlu bönkunum yfir í þá nýju og því nær að tala um að ríkið, með eiginfjárframlagi sínu, hafi eignast […] (Forseti hringir.) hluti í nýju bönkunum í tengslum við endurreisn viðskiptabanka eftir hrunið, frekar en að eiginleg sala á hlutabréfum hafi átt sér stað.“ (Forseti hringir.)

Ég velti fyrir mér hvort hv. þm. Guðlaugur Þór (Forseti hringir.) Þórðarson hafi lesið þetta og hv. þm. Vigdís Hauksdóttir sem er stundum að tala um …