144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[17:45]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég er ánægður með að hæstv. ráðherra viðurkenni það að 50–60 milljóna rekstrarkostnaður á svona einingu sé ekki há tala í ljósi þeirra gríðarlegu hagsmuna og verðmæta sem verið er að passa upp á. Það eru ekki endilega rök þar með að það eigi að búa til margar slíkar utan um eignarhaldið á öðrum fyrirbærum, Landsvirkjun og öðrum slíkum. Þar er til dæmis sá munur á að þó að hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra fari með bréfið í Landsvirkjun, Isavia og fleiri opinberum hlutafélögum heyra þau að uppistöðu til undir önnur fagráðuneyti faglega. Eignarhaldsfúnksjónin er hrein í fjármálaráðuneytinu en ráðuneytið er að öðru leyti ekki ráðuneyti viðkomandi málaflokks. Það tel ég kost í þessum tilvikum.

Ég er að sjálfsögðu ekki að gerast talsmaður þess að svo lengi sem ríkið eigi eina einustu krónu í einhverri fjármálastofnun eigi að vera Bankasýsla, ég er ekki að því, en ég hef spurt spurningarinnar: Er tímabært í ljósi stöðunnar að leggja það fyrirkomulag niður sem ákveðið var 2009 til að halda utan um þetta gríðarlega vandasama hlutverk sem svona umfangsmikið eignarhald á kerfislega mikilvægum fjármálafyrirtækjum er (Forseti hringir.) þangað til ríkið er búið að straumlínulaga það og kannski draga sig út úr (Forseti hringir.) öllum slíkum einingum nema einni eða tveimur?