144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[17:50]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég leyfði mér að rifja upp og minna á, m.a. með því að lesa upp nefndarálit sem hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson skrifaði upp á, að áhyggjur sjálfstæðismanna og minni hlutans voru af því að armslengdarsjónarmiðin væru ekki nógu vel tryggð í þessu fyrirkomulagi. Þess vegna á ég erfitt með að sjá hv. þingmann koma hér upp sem stuðningsmann þess að færa þetta til baka, a.m.k. að einhverju leyti. Við getum deilt um hversu mikið eða afgerandi það er, en að sjálfsögðu er hreyfingin í þá átt að færa málið inn í ráðuneytið. Það að leggja niður sjálfstæða stjórn og setja á ráðgjafarnefnd, láta allt hverfa út úr lögum sem varðar samskipti ráðherrans við stjórn Bankasýslunnar í dag er afturför að þessu leyti.

Auðvitað þekki ég minn góða vin, hv. þm. Guðlaug Þór Þórðarson, þegar hann fer beint í að segja að eitthvað misjafnt hafi gerst á síðasta kjörtímabili, að ég hafi hangið á eignarhaldi í einhverjum sparisjóðum sem hefðu átt að fara til Bankasýslunnar. Það var nákvæmlega sama verklag notað í öllum tilvikum sem sams konar og samkynja aðstæður komu upp, það var í höndum ráðuneytisins að taka við boltanum frá Fjármálaeftirlitinu ef stofnun komst í þrot, setja á fót (Forseti hringir.) nýja og ganga frá fjárhagslegum grundvelli þeirrar stofnunar. Þegar það var búið og gert færðist eignarhaldið til (Forseti hringir.) Bankasýslunnar …