144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[17:52]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég hvet menn sömuleiðis til að lesa skýrsluna um sparisjóðina, lesa rannsóknarskýrslu Alþingis, helst bara alla saman og allt sem þar kemur fram, líka það sem þar er fjallað um stjórnmálamenn og þar fram eftir götunum. Þetta var nákvæmlega svona og það er staðfest í skýrslunni um sparisjóðina. Fjármálaráðuneytið varð að koma fram fyrir hönd ríkisins þegar menn urðu að grípa til þess á grundvelli ákvæða neyðarlaganna að setja á fót nýja stofnun til að taka við eignum og skuldbindingum út úr annarri sem var komin í þrot. Ef ekki gekkst þannig frá málum að hún færi beint yfir í aðra starfandi fjármálastofnun var slík stofnun sett á fót, nákvæmlega eins og gert var með stóru bankana þrjá haustið 2008. Fjármálaráðuneytið gat eðli málsins samkvæmt eitt komið að samningum um fjárhagslega endurskipulagningu og fjármögnun þeirra nýju eininga á fjármálamarkaði því að það varð að leggja fram peningana eða semja um hvernig það væri gert. Þegar sú fjármögnun lá fyrir, þegar stofnanirnar uppfylltu kröfurnar, færðist eignarhaldið yfir í Bankasýsluna. (Forseti hringir.) Það er staðfest að þetta var nákvæmlega svona, m.a. í skýrslunni um sparisjóðina.