144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[17:55]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Nú flækir hv. þingmaður málið en alveg réttilega því að það verður nefnilega ekki bæði sleppt og haldið. Á þetta benti ég mönnum á sínum tíma, í umræðum vorið 2009, að annars vegar er krafan um að það liggi algerlega fyrir hvar pólitíska ábyrgðin er og hins vegar að hið pólitíska vald sé ekki með puttana í hlutunum. Þetta fer ekki alltaf vel saman. Það eru kostir og gallar við hvort tveggja.

Ef svona mál er í ráðuneyti á ábyrgð ráðherrans liggur algerlega ljóst fyrir að hann er í einu og öllu ábyrgur. Ef því er hins vegar útvistað í sjálfstæða stofnun og sjálfstæða einingu er ráðherrann að mörgu leyti í miklu snúnari stöðu vegna þess að hann ber samt yfirábyrgð á málaflokknum. Út af fyrir sig greina menn ekki alltaf vel þar á milli. Hann er skammaður ef eitthvað fer úrskeiðis, jafnvel þó að Alþingi gengi þannig frá málum að hann mætti ekki koma nálægt neinu. Það er ekki endilega auðvelt hlutskipti.

Er núverandi fyrirkomulag endilega best ef við viljum tryggja að ekkert misfarist þegar farið yrði að selja hluti? Það má hafa efasemdir (Forseti hringir.) um það. Það eina sem ég þykist hafa lært af þessu öllu saman gegnum undangengin ár er að gagnsæi, gagnsæi og aftur gagnsæi er skásta vörnin.