144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[17:56]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þar er ég hjartanlega sammála, þetta ferli verður að einkennast af gagnsæi.

Ég held að það hafi verið ríkar röksemdir fyrir því að stofna svona sjálfstæða stofnun. Eitt sem hefur ekki verið minnst á hér er að þetta var gríðarlega umfangsmikið verkefni, sérstaklega á þessum tíma þegar dálítið mikið var að gera í ríkisrekstrinum, skulum við segja, í eftirleik hrunsins. Það var líka ein röksemdin fyrir því að stofna þetta. Ég get alveg gefið hv. þingmanni það að þetta hafi hugsanlega verið góð hugmynd á þessum tíma þó að ég hafi gagnrýnt það, en nú erum við á öðrum tímapunkti. Nú erum við að fara að selja þetta. Getur hv. þingmaður séð einhverja leið sem við getum fundið til að sameina bæði ábyrgð og fagmennsku? Mætti til dæmis finna hana í að við lögfestum einhvers konar breiðari aðkomu pólitískt en (Forseti hringir.) bara til dæmis ráðherrans eða einhverja aðkomu annarra (Forseti hringir.) aðila í samfélaginu að þessu ferli? Þurfum við kannski að hugsa út fyrir boxið?