144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[18:03]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er gagnlegast fyrir menn að bera saman 1. gr. laga um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum í dag og upphafsmálsgrein 8. gr. þessa frumvarps. Í 1. mgr. laganna nr. 155/2012 segir:

„Ráðherra er heimilt að selja að öllu leyti eða að hluta eftirtalda eignarhluti ríkisins í fjármálafyrirtækjum, að fenginni heimild í fjárlögum og fengnum tillögum frá Bankasýslu ríkisins skv. i- og j-lið …“

Lagaheimildin er í dag beinlínis skilyrt og bundin við það að tillögur þar um séu komnar frá Bankasýslunni. Annars hefur ráðherrann ekki heimild að lögum til að fara af stað með söluferli. Þetta er skýr munur. Það get ég staðfest án þess að ég ætli endilega að nota nákvæmlega sama orðalag um þetta og hv. þingmaður.