144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[18:25]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þetta. Varðandi umbunarkerfi í samfélagsbönkum held ég að það sé ekkert ólíkt öðrum umbunarkerfum eða kaupkerfum í venjulegum fyrirtækjum. Það getur verið allur gangur á því hvaða viðmið eru lögð til hliðsjónar önnur en þau um hámörkun hagnaðar um það hvort fólk eigi að fá bónus, það geta verið viðmið eins og: Hvað voru margir viðskiptavinir ánægðir? Hvað fengum við í einkunn frá viðskiptavinum? Komum við út sem vinsælt fyrirtæki? Fáum við góða dóma hjá starfsfólkinu? Sinnum við samfélagslegum skyldum okkar vel? Afgreiðum við lán hratt og vel og á hagkvæmum kjörum? Erum við að tapa lánum? Veljum við skynsama lántakendur eða ekki? Allt þetta, það er hægt að hafa alls konar mælikvarða. Ég er almennt á móti einföldum, fábrotnum mælikvörðum. Ég held að þeir eigi að vera flóknir. Og síðan að vera með skynsamt fólk sem hægt er að treysta vel og borga ágætislaun og leyfa því aðeins að hafa vit á því að gera rétta hluti í starfinu.