144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[18:29]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að hrella hv. þingmann með því að fara nokkrum orðum um sannfæringu Framsóknarflokksins. Ég tel að ef hv. þingmenn flokksins hafi sannfæringu í þessum tveimur efnum þá hafi hún komið fram á flokksþinginu. Ég spyr hv. þingmann: Er það ekki rétt hjá mér að samkvæmt fréttum þá greiddu allir þingmenn Framsóknarflokksins á flokksþinginu atkvæði með báðum þessum tillögum? Ég lít þannig á að þeir séu að minnsta kosti fáir sem kunna að hafa aðra sannfæringu. Í öllu falli liggur algjörlega ljóst fyrir að við erum að ræða frumvarp sem Framsóknarflokkurinn er í meginatriðum á móti samkvæmt ályktunum flokksþingsins. Hvers vegna í ósköpunum erum við þá að eyða tíma okkar í að ræða frumvarp sem augljóslega hefur ekki meiri hluta á Alþingi Íslendinga? Ég er mjög hissa á því.

Ég hef gert tvær atrennur að því í dag, herra forseti, að fá upplýsingar um það hversu margir þingmenn Framsóknarflokksins gerðu fyrirvara við frumvarpið. Ég spurði hv. þingmann í dag. Hann er talsmaður flokksins í efnahagsmálum. Þess vegna get ég leyft mér að spyrja hann og við í þinginu eigum heimtingu á að vita: (Forseti hringir.) Hversu margir þingmenn Framsóknarflokksins treystu sér ekki til þess að lýsa yfir stuðningi við þetta frumvarp eins og það er?