144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[19:00]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég hef verið að fylgjast með umræðunni í dag og hún hefur nú verið svolítið þannig að hv. stjórnarandstæðingar hafa verið að tala hver við annan og ég hef verið að leita eftir rökum þeirra gegn þessu máli. Ég heyrði hv. stjórnarandstöðuþingmenn tala um Benito Mussolini áðan, ég veit ekki alveg hvernig það rataði inn í þessa umræðu, en það er áhugavert að ræða þann sósíalista. Hann var forustumaður sósíalista á Ítalíu en taldi hins vegar að auðveldara væri að ná samstöðu meðal fólks um þjóðerni heldur en stéttir og fór þess vegna í annars konar sósíalisma en hinn hefðbundna, ef þannig má að orði komast. Ég vona, virðulegi forseti, að við séum ekki að tala um neitt í tengslum við þetta mál eða önnur hér sem líkir okkur við slíkar öfgastefnur. En ég held að það væri hins vegar hollt að fara yfir slíkan sósíalisma, og sömuleiðis þjóðernissósíalismann sem var mjög áberandi á þeim tíma, en einn mesti fjöldamorðingi sögunnar, Adolf Hitler, stýrði því einmitt og það er víti til varnaðar að slíkt getur gerst í okkar næsta nágrenni og áhugavert að sjá hvernig öfgastefnur geta leikið, ekki bara þjóðir heldur í því tilfelli mannkynið. Mig minnir að Benito Mussolini hafi skilgreint frelsi einstaklingsins þannig að frelsi einstaklingsins fælist í því að vera partur af sterkri heild og er það svona lýsandi dæmi um það hvernig heildarhyggjufólk leggur upp hlutina. Hann hafði tækifæri til að koma hugmyndum sínum á framfæri og þær voru skelfilegar. Það er nákvæmlega eins og menn eru hér að ræða, að vísu ekki í neinu svona samhengi við efni máls, að mjög hættulegt er að stjórnmálamenn hafi of mikil völd.

Stundum er það hins vegar þannig að menn leggja upp og búa til einhver tæki. Það er ekki þannig þegar menn skoða þessar skelfilegu öfgastefnur og framkvæmd þeirra að menn hafi komið fram og sagt að þeir ætli að verða versta fólk í heimi, sem reyndist svo vera, alla vega hefur vonandi ekki verið til mikið verra, og að menn hafi lagt hlutina upp með þeim ásetningi. Leiðin til heljar er alltaf vörðuð góðum ásetningi, þó að ég efist um að þeir einstaklingar hafi haft góðan ásetning en í það minnsta settu þeir hann í þann búning. Ástæðan fyrir því að í Þýskalandi eru þjóðaratkvæðagreiðslur bannaðar er að þjóðernissósíalistarnir notuðu þær til að koma hinum ýmsu málum þar í gegn þannig að það er hægt að misnota alla hluti ef vilji er fyrir hendi.

Hér hafa komið fram ýmis rök. Aðallega virðast menn vera að ýja að því að í þessu felist eitthvert valdaafsal til ríkisstjórna sem hafi einhvern sérstakan áhuga á því að draga valdið sitt og menn eru hér að dylgja um slíka hluti. Nefna hluti eins og hækkun bónusa og nú vita allir hv. þingmenn sem hér eru hvað það er. Ég trúi því ekki að menn fari að ræða um það frumvarp án þess að hafa kynnt sér það, að það er byggt á tilskipunum og reglum Evrópusambandsins og ríkisstjórnin hefur reynt að lágmarka bónusana en þetta er nokkuð sem er í því regluverki. Hér er hins vegar talað um að það sé einhver sérstakur vilji hæstv. ríkisstjórnar að fara að setja af stað bankabónusa. Ég geri ráð fyrir að það sé gert til að ala á tortryggni meðal þjóðarinnar og það er auðvitað ekki gott. Einnig tala menn um það að ef uppi eru hugmyndir um að fjölga bankastjórum úr einum í þrjá sé það gert til að auka vald stjórnmálamanna og viðkomandi ríkisstjórna. Það vita menn eðli málsins samkvæmt að er ekki rétt, því að meiri líkur eru á valddreifingu innan þeirrar mikilvægu stofnunar, Seðlabankans, að hafa þrjá heldur en einn bankastjóra. Svo geta menn haft allar skoðanir á því hvort það sé rétt eða rangt.

Síðan tala menn um eðli bankakerfisins. Það er bara stórt vandamál og sérstaklega í Evrópu. Við erum nátengd því reglugerðarfyrirkomulagi og höfum raunar tekið upp allt okkar reglugerðarfyrirkomulag frá Evrópusambandinu og þar á bæ hafa menn hreinlega frestað vandanum. Bandarískir skattgreiðendur björguðu Evrópusambandinu úr bankakrísunni 2008, þeir björguðu í rauninni öllum öðrum en okkur Íslendingum. Við vorum heppnir þar, við vorum búnir að klúðra samskiptunum við Bandaríkin og fengum ekki lánagreiðslu þar eins og aðrar Evrópuþjóðir. Það reyndist vera lán í óláni þó að mönnum hafi brugðið nokkuð við á þeim tíma.

Hér tala menn um að Ríkiskaup sé ekki nógu sterk stofnun og hafi ekki neina burði til að geta komið að þessum málum og tala hér eins og sú stofnun — sem er búin að kosta tæpar 400 millj. kr. á síðustu sex árum, hún er með þrjá menn í stjórn, hún er með tvo starfsmenn og ritara — sé algerlega nauðsynleg til að bregðast við einhverju sem hefur ekki verið almennilega skilgreint. Það er alveg vitað og kemur fram að ef menn ætla að fara í sölu og einkavæðingu á bönkunum þarf það að fara í gegnum fjárlögin og taka þarf þá umræðu. Það er alveg ljóst að ef við förum í slíkt, ég tala nú ekki um ef fleiri bankastofnanir koma inn, þá þurfa menn að vanda mjög til verka hvað það varðar. Stofnunin með þessa tvo starfsmenn verður ekki burðug til að gera það. Það þarf að kalla á þekkingu annars staðar. Þetta vita allir hv. þingmenn sem hér hafa talað en þeir leggja frekar áherslu á að dylgja um einhverjar annarlegar hvatir hjá hæstv. ríkisstjórn. Mér finnst það vera ljótur leikur, ég vil bara segja það, mér finnst það vera ljótur leikur.

Af því að menn tala um armslengdina og það að stofnunin sé einhver lykill að því að halda úti — auðvitað er þetta dýr stofnun sem kostar tæplega 400 millj. á sex árum, auðvitað er það mikill kostnaður — henni hefur ekki tekist að halda armslengdinni frá því að stjórnmálamenn séu í bankarekstri, það er bara langur vegur frá. Og ef einhver efast um það þá hvet ég menn til að lesa rannsóknarskýrslu um fall sparisjóðanna og ég hvet menn til að lesa kafla 19.6. Þar er farið nákvæmlega yfir það að þrátt fyrir að við værum með Bankasýsluna voru reknir bankar hér, stórir bankar á íslenskan mælikvarða, Sparisjóður Keflavíkur og Byr, þrátt fyrir endalausar viðvaranir sérfræðinga, hvort sem það var Fjármálaeftirlitið, Seðlabankinn, seðlabankastjóri, Mats Josefsson eða Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, þetta kemur allt fram í þeirri skýrslu. Við vöruðum við að sú leið væri farin sem farin var, en það var gert með gríðarlegum kostnaði fyrir ríkissjóð, þ.e. skattgreiðendur, og í ofanálag uppfylltu þessar bankastofnanir ekki lögleg skilyrði.

Nú er ég ekki fyrsti maðurinn í þessari umræðu sem tekur upp málefni frá síðasta kjörtímabili, reyndar tel ég að nauðsynlegt sé að gera það til að setja hlutina í samhengi. Ef menn hafa áhyggjur af því að einhverjir stjórnmálamenn hvort sem það er í þessari ríkisstjórn eða næstu — það liggur alveg fyrir að hún muni ekki stoppa það að stjórnmálamenn skipti sér af bankastarfsemi á Íslandi. Það liggur alveg hreint og klárt fyrir.

Hér kemur hv. þm. Össur Skarphéðinsson og segir að ráðherra hafi sérstaka friðarskyldu, ef ég skildi það rétt í því stutta andsvari hjá hv. þingmanni, hann kemur kannski í andsvar við mig og leiðréttir mig ef ég fer rangt með, þá er það er einhvern veginn þannig að ráðherrar eigi ekki að koma með mál sem eru sérstök deilumál. Þessi ágæti, prýðilegi hv. þingmaður, Össur Skarphéðinsson, sem ég kann nú vel við, (Gripið fram í.) ég hefði bara áhyggjur af athugasemdum frá virðulegum forseta ef ég tjái ást mína frekar við hv. þingmann, kom hér inn í þingið með mál sem hefur klofið allar Evrópuþjóðir, sem er helsti ófriðarvaldur í Vestur-Evrópu í dag og Austur-Evrópu líka, sem er Evrópusambandið, hvorki meira né minna. Álfan logar í deilum út af Evrópusambandinu. (Gripið fram í: Álfan?) Evrópa. (ÖS: Það er nú ekki mér að kenna.) Hv. þingmaður sem ég treysti að fari í andsvar á eftir ber af sér sakir og segir að ástandið í Evrópu sé ekki honum að kenna, ég held að það sé rétt hjá hv. þingmanni. Ég held að það sé alveg hárrétt að hv. þm. Össur Skarphéðinsson ber ekki ábyrgð á öllum vanda Evrópusambandsins. En hann sem segir að það sé sérstök friðarskylda hjá ráðherrum kom hér fram með þetta mikla ófriðarmál sem hefur klofið nágrannaþjóðir okkar í herðar niður, til dæmis vina- og frændþjóð okkar, Norðmenn, og það er eitthvað í það að þeir taki það mál aftur, enda klauf málið bæði fjölskyldur, vinahópa og stjórnmálaflokka. Menn skyldu ekki gera lítið úr því. Hv. þingmaður kemur örugglega í andsvar og við getum rætt þetta á eftir.

Burt séð frá því að hér er ákveðinn vilji til að gera hæstv. ráðherra í núverandi ríkisstjórn tortryggilega, það heyrist mér vera með allra handa dylgjum, þá er þetta ekki bara það heldur kristallast vandinn við það að taka á ríkisfjármálum. Hér hafa engin efnisleg rök verið færð fyrir því að þurfa að hafa heila stofnun með fleiri stjórnarmenn en starfsmenn. Það eru fleiri stjórnarmenn en starfsmenn. Ég held að enginn mundi segja: Við þurfum að gera þetta til að halda utan um eignarhluta jafnvel þó að menn gætu allir verið sammála um að armslengd eigi að vera í þessu eins og ýmsu öðru. Vilja menn að stjórnmálamenn séu á kafi í rekstri Íbúðalánasjóðs? Vilja menn að stjórnmálamenn séu á kafi í rekstri Landsvirkjunar eða fyrirtækja almennt? Ég held að svarið sé nei, það vilja menn ekki. En eru menn með stofnanir utan um allar þessar ríkisstofnanir um eignarhlutana? Ég get sagt að ef sett verður stofnun í kringum þau fyrirtæki sem ég nefndi, og Ríkisútvarpið, og menn ætluðu síðan að segja: Þetta er ekki rökrétt, við skulum leggja þetta af, þá geta menn komið með nákvæmlega sömu rök og núna fyrir því að viðhalda sama ástandi.

Staðreyndin er sú að á síðasta kjörtímabili — ég tók það sérstaklega fyrir en það hefur örugglega verið áður líka — sérstaklega eftir bankahrunið, ætluðum við að forgangsraða, það var náttúrlega í orði kveðnu í þágu grunnþjónustu. Það var gert. Það var forgangsraðað í þágu stofnana sem tengjast ekki grunnþjónustu, t.d. eftirlitsstofnana, ákveðinna undirstofnana umhverfisráðuneytisins, utanríkismálanna, m.a. út af ófriðarmálinu ESB, af því að menn vildu koma íslenskri þjóð inn í það tollabandalag. En síðan kom stóri sparnaðurinn hlutfallslega sérstaklega niður á heilbrigðisstofnunum, menntamálum og öðru slíku. Þetta getur hver sem vill skoðað með því að fara í ríkisreikning. Þetta liggur hreinlega fyrir, þetta var gert. Þegar menn hlusta á umræðuna skilja menn kannski af hverju þetta er. Um leið og menn koma með þetta mál sem er jafn sjálfsagt er eðlilegt að menn vilji spara það sem hægt er að spara með fullri virðingu fyrir Bankasýslunni. Ég er ekki að gagnrýna starfsfólkið þar, engan veginn. Ég tel til dæmis að skýrslan sýni, úttektin sem Bankasýslan gerði á síðasta kjörtímabili um sparisjóðina, tillögurnar sem voru kynntar fyrir okkur í hv. viðskiptanefnd, að við værum í miklu betri málum ef farið hefði verið eftir því. En þrátt fyrir að stofnunin væri búin að leggja alla þá vinnu í það sagði þáverandi ríkisstjórn: Við gerum ekki neitt með þetta, okkur er bara alveg sama. Það getur vel verið að þetta kosti einhverja tugi milljóna að búa þetta til og vera með einhverja stofnun og það hljómar bara vel. Við getum talað um armslengd í ræðum og faglega stýringu og hvað þetta er, en svo tóku þeir bara skýrsluna, já, áhugavert. Svo fór hún bara í tætarann. Og kostnaður okkar eftir bankahrunið af sparisjóðunum nemur tugum milljarða.

Það er hins vegar þannig að ef menn hefðu farið þá leið sem Bankasýslan lagði til og ef við hefðum farið þá leið sem ég og hv. þm. Össur Skarphéðinsson gerðum og var tekið fyrir í skýrslunni um sparisjóðina, og hv. þm. Össur Skarphéðinsson skoðaði sérstaklega vegna þess að hann var ekki viss hvort ég væri að gera alveg rétt, af því að ég var sparisjóðaráðherra, með Sparisjóð Mýrasýslu, það kostaði skattgreiðendur ekki krónu. (Gripið fram í.) Ég held að flest það sem gott gerist í þjóðfélaginu tengist Össuri Skarphéðinssyni með einhverjum hætti en ekki þetta samt. En hins vegar minni ég hv. þm. Össur Skarphéðinsson á það vegna þess að hann skoðaði þetta mál sérstaklega af einskærum áhuga.

Ég veit ekki af hverju — eða auðvitað veit ég það, það er að vísu ekki sérstaklega til vinsælda fallið miðað við síðustu skoðanakannanir ef undan eru skildir Píratar sem fljúga hér með himinskautum í skoðanakönnunum, en aðrir flokkar hafa ekki riðið feitum hesti frá því að reyna að gera allt sem tengist þessari ríkisstjórn tortryggilegt, en þeir ætla að halda því áfram. Ókei, þá gera menn það, en ég kalla samt eftir því að einhver efnisrök komi fyrir því að sérstök stofnun sé utan um þessa eignarhluti. Því að ef svo er, þá skulum við fara að setja fleiri bankasýslur á laggirnar, því að nóg er af eignarhlutum ríkisins, og öll þau rök sem menn hafa lagt fram hér varðandi armslengd hljóta því að eiga við annars staðar.