144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[19:19]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Sama hvaða lög við setjum er það ekki svo gott að hæstv. ráðherra, sama hver er það er, geti farið og selt einhverja hluti. Hv. þingmaður er í hv. fjárlaganefnd og veit að við þurfum alltaf að veita samþykki fyrir því í fjárlögum. Ég tel eðlilegra að við nálgumst málið á þennan hátt: Hvernig getum við séð til þess að salan á þessum ríkiseignum, eins og öðrum, verði eins fagleg og mögulegt er? Eins og komið hefur fram og ég fór nákvæmlega yfir í ræðu minni varðandi stofnunina náðust ekki þau markmið sem lagt var af stað með, þannig að það eitt og sér er ekki lausnin. Það er svo einfalt og ef menn trúa mér ekki skulu þeir lesa skýrslu rannsóknarnefndarinnar um sparisjóðina. Þar er þetta allt saman tilgreint.

Ég skrifaði ansi margar greinar, hélt enn þá fleiri ræður og ég get farið yfir þetta með hv. þingmanni og við munum gera það í hv. nefnd þegar þar að kemur. Ég vonast til þess að við getum rætt það til að læra af þeirri reynslu. (Forseti hringir.) En það er ekki þannig að hæstv. ráðherra geti selt það sem hann vill, raunar getur hann ekki selt neitt nema með ákvörðun Alþingis.