144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[19:26]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er margt í frumvarpinu sem mér finnst alveg ágætt. Ég held að við séum í raun öll nokkurn veginn sammála, að þetta sé mál sem við eigum að geta náð sátt um. Við viljum að ferlið sé umfram allt gegnsætt þegar farið er í að selja eigur ríkisins. Við viljum fagleg vinnubrögð. Við viljum forðast einkavæðingarmistök fortíðarinnar og verkefnið er í raun — vegna þess að lítið traust ríkir á milli minni hluta og stjórnvalda, og það er ekkert nýtt, þannig var það líka á síðasta kjörtímabili — að skapa traust.

Ég vil spyrja hv. þingmann — þetta er sama spurning og ég spurði hæstv. fjármálaráðherra — hvort hann sjái fyrir sér að ráðgjafarnefndin verði ekki bara skipuð af hæstv. ráðherra heldur verði sjálfstæðari; að minni hlutinn eða Seðlabankinn kæmi að henni eða hún á einhvern hátt gerð sjálfstæðari með því að skipa hana á annan hátt, hvort ekki megi hugsa sér einhverja slíka málamiðlun til að fá botn í málið. Ég held að við séum sammála um það.