144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[19:27]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er alla vega sammála hv. þingmanni í því að við eigum að tala um efni máls, hvert verkefnið er og hvernig við getum nálgast það og traust er einn þáttur. Þá þurfum við bara að fara yfir það og til þess fer málið í nefndina. Ég held hins vegar að málið sé af þeirri stærðargráðu, þegar kemur að einkavæðingu bankanna og annarri einkavæðingu, að það sé alveg sérstakt markmið að það snúist ekki bara um stjórn og stjórnarandstöðu. Það er ekkert gott að það sé alltaf kósí á milli stjórnar og stjórnarandstöðu, þá eru skattgreiðendur oft í slæmum málum; hv. stjórnarandstaða á að gagnrýna okkur í stjórnarliðinu alveg miskunnarlaust; að því gefnu að það sé gert málefnalega og út frá staðreyndum þá er það allt í fínu lagi.

Það liggur fyrir, af mörgum ástæðum, að þegar kemur að því að selja ríkiseignir þá verður að gera það þannig að sem mest traust ríki. Við í meiri hluta fjárlaganefndar höfum viljað leggja áherslu á útboðsmálin og aðra slíka þætti vegna þess að þetta er ekki í nógu góðum málum. Við skulum ræða það. Ég útiloka ekkert í því samhengi en ég ætla ekki á þessari stundu að svara fyrir um einstaka þingmenn.