144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[19:28]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka svarið. Mig langar aðeins að spyrja út í eitt: Ég er svolítið hissa á því að þessu máli verði vísað til hv. fjárlaganefndar þar sem ég á sæti þar sem ég taldi það eiga heima hjá efnahags- og viðskiptanefnd eins og bankamál yfir höfuð; einnig vegna þess að fjárlaganefnd hefur gríðarlega mörg og mikilvæg verkefni núna, til dæmis að klára lögin um opinberu fjármálin. Við erum sem betur fer að vinna mjög vel að því og í samstöðu en okkur veitir ekki af tímanum til að klára það mál.

Ég er svolítið hissa á því að talað sé um að vísa þessu máli til fjárlaganefndar og ég spyr um afstöðu hv. þingmanns hvað það varðar.

Ég tel nokkuð víst að efnahags- og viðskiptanefnd hafi meiri tíma til að fara í málið og einnig að það eigi beinlínis heima þar. Þetta snýr að bönkum og þó að þetta snúist um sölu á ríkiseignum að einhverju leyti þá er það ekki fyrr en við munum selja bankana sem þetta verður sala á ríkiseignum, 6. gr. heimild. Þetta frumvarp finnst mér eiga heima í efnahags- og viðskiptanefnd.