144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[19:30]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg útilokað. Ef við tölum um tímafaktor þá er alveg ljóst að málið á miklu betur heima, ef við höfum hugsað okkur að klára málið, í hv. fjárlaganefnd. Það er miklu minna sem liggur fyrir í hv. fjárlaganefnd en það sem er hjá hv. efnahags- og viðskiptanefnd.

Það sem hefur breyst með þessari hv. fjárlaganefnd er það að við höfum verið að taka að okkur verkefni á vormánuðum sem kannski var ekki jafnmikið gert af áður. Við erum náttúrlega komin ansi langt með opinberu fjármálin og síðan erum við mjög hörð með að fara í eftirlit með því sem gerist í ríkisrekstrinum og er það að mjög stórum hluta nýmæli. Við getum auðvitað líka gert það í sumar og við munum funda eins og við höfum gert á sumarmánuðum. Það er ekki bundið við þingtímann.

Ég var að sjá listann, ég held að það séu tveir tugir af málum sem liggja fyrir hjá hv. efnahags- og viðskiptanefnd. Það er mín skoðun að það sem snýr að ríkisrekstrinum eigi frekar heima í hv. fjárlaganefnd og sérstaklega mál eins og þetta. Ég vil reyndar fá fleiri mál inn í þá hv. nefnd.