144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[19:31]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður talar um traust. Heldur hann að það sé líklegt til að skapa traust að taka sölu á hlutum ríkisins í bönkum nánast inn á skrifborð hæstv. fjármálaráðherra? Sporin hræða í þeim efnum. Ég var í þessum sal 2002 og 2003 þegar menn voru að einkavæða bankana. Ég sá forustur þáverandi stjórnarflokka taka heljarstökk, hverfa hér í þingsal, hverfa frá yfirlýstri stefnu sinni um dreifða eignaraðild og á endanum var bönkunum komið í hendur manna sem höfðu pólitísk tengsl. Þetta vissi þingheimur árið 2009 þegar menn fóru í það að stofna Bankasýsluna. Það var þess vegna sem hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson skrifaði undir nefndarálit þar sem rakin voru rökin fyrir nauðsyn þess að viðhalda og viðhafa þetta armslengdarsjónarmið, til að skapa fjarlægð á milli hins pólitíska valds og fjármálanna. Hvað hefur breyst, hv. þingmaður?