144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[19:32]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég var ekki á þingi á tímum einkavæðingarinnar hinnar fyrri sem hv. þingmaður vísar til en ég þykist muna að hv. þingmaður fagnaði þeirri aðferð sem þá var farin. Hv. þingmaður leiðréttir mig ef svo er ekki, þá er hægt að fletta því upp. Ég skil ekki, eins og hv. þingmaður er indæll að öllu leyti, af hverju hann hlustar aldrei á ræður mínar. Ég hvatti hann til að fara í andsvar en ég gerði ráð fyrir að hann hefði hlustað á það sem ég sagði. (Gripið fram í.) Af hverju hlustaði hv. þingmaður ekki á ræðu mína? Ég fór nákvæmlega yfir þetta með armslengdarsjónarmiðin, að þrátt fyrir stofnun sem kostar fullt af peningum (Gripið fram í.) gekk það ekki eftir á síðasta kjörtímabili. Ég er alveg sammála því að við eigum að hafa armslengdarsjónarmiðið en það er algerlega ljóst að stofnunin dugði ekki til. Hv. þingmaður vildi ekki hlusta á ræðu mína en vill hann lesa skýrsluna um sparisjóðina og kannski útskýra, af því að hann var í ríkisstjórninni, af hverju þeir gengu svona fram með SpKef og Byr og af hverju þeir fóru ekki eftir tillögum Bankasýslunnar um sparisjóði?