144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[19:33]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég er til í að taka umræðu um sparisjóðina við hv. þingmann hvenær sem hann vill. Núna er ég hins vegar samkvæmt rétti mínum að spyrja hann út í ræðu hans. Eigum við ekki að segja hlutina umbúðalaust eins og þeir eru?

Það eru ákaflega fáir sem hafa áhuga á því að leggja niður Bankasýsluna. Það kemur í ljós að Framsóknarflokkurinn er upp til hópa á móti því. Formaður efnahags- og skattanefndar taldi mjög sterk rök gegn því. Hæstv. fjármálaráðherra var ekki beinlínis sterkur í trúnni þegar hann flutti framsöguræðu sína. Hvaðan kom hugmyndin? Hún kom frá tveimur þingmönnum. Annar var hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson, hinn var hv. þm. Vigdís Hauksdóttir. Þetta er niðurskurðarnefndin fræga, nefndin sem fór hérna með fjaðraþyt og söng um loftin blá og kynnti gríðarlegar tillögur um hvernig hún ætlaði að spara í ríkisrekstri. Ein af öðrum hafa þær tillögur fallið til jarðar eins og skotnir fuglar. Þetta er eitt af því fáa sem er eftir. Þess vegna rembist hv. þingmaður eins og rjúpan við staurinn við að leggja niður stofnun sem hann studdi sjálfur árið 2009. Er það ekki ástæðan, hv. þingmaður?