144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[19:34]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kannast ekki við að hafa stutt stofnunina en mér finnst ágætt að það kom þó skýrt fram, þótt hv. þingmaður hafi ekki minnst á það, að hann studdi þá leið sem var farin í einkavæðingunni á sínum tíma. Ég trúi því ekki að hv. þingmaður ætli sér neitt slæmt (Gripið fram í.)hvað það varðar. Hins vegar liggur fyrir að hér var samt sem áður stofnun sem átti að halda utan um eignarhlutina, það voru samt sem áður tveir bankar með starfsemi sem voru reknir áfram af ríkisstjórninni, ríkisstjórninni sem hv. þingmaður var í. Þegar kemur að hagræðingarnefndinni hvet ég hv. þingmann til að kynna sér rúmlega 100 tillögur og sjá (Gripið fram í.) hvað verður framkvæmt af þeim. Hv. þingmaður vill kalla fram í vegna þess að hann vill ekki ræða þá hluti. (ÖS: Ég vil það.) Auðvitað er það þannig. (ÖS: Mér þykir líka vænt um þingmann.) Virðulegur forseti. Getur þú róað hv. þingmann. Hann er svolítið æstur.

(Forseti (SJS): Forseti biður menn að gefa ræðumanni hljóð.)

Virðulegi forseti. Það liggur alveg fyrir að ég mun berjast fyrir því að vel sé farið með skattfé almennings. Ég hef gert það fram til þessa (Forseti hringir.) og mun halda því áfram, því að það eru nóg verkefni til að setja fjármunina í, m.a. í grunnþjónustu og í að greiða niður skuldir.