144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[20:23]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hér eftir hrun, bæði úti í samfélaginu og í þessum þingsal, var heilmikið talað um það hvernig við gætum endurunnið traust sem við hefðum glatað. Traust á stjórnmálamönnum fór dvínandi og okkur hefur ekki tekist að vinna það til baka eins og við hefðum gjarnan viljað. Ég tel að þetta frumvarp ýti undir tortryggni og vantraust frekar en að það stuðli að auknu trausti.

Einkavæðing bankanna var mikið gagnrýnd og var mikið talað um að þar hefði pólitíkin komið að. Sumir hafa jafnvel sagt að einkavæðing bankanna hafi verið rót vandans, það sem hafi orðið til þess að allt fór úr böndunum og hrundi í hausinn á okkur.

Ég vil spyrja hv. þingmann, af því að þetta hefur komið til umræðu hér í dag, hvernig hægt sé að sætta pólitíkina í þessu ferli og minnka tortryggnina. Menn segja: Hér eru helmingaskiptaflokkarnir og þeir munu sjá um sína o.s.frv. Fyrr í dag var talað um að kannski væri ráð að setja saman þverpólitíska eftirlitsnefnd, að hafa jafnvel millistykki, sem væri Bankasýslan, áfram og að nefndirnar fengju aukið vægi og síðan værum við með þverpólitíska nefnd sem hefði eitthvað um ferlið að segja. Hvað segir hv. þingmaður um þetta? Telur hún að það gæti orðið til að auka traust og draga úr tortryggni?