144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[20:25]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Meiri hlutinn, sem að frumvarpinu stendur, trúir því greinilega að með því að setja upp sjálfstæða ráðgjafarnefnd sé verið að treysta gagnsæi og trúverðugleika. Ég tel svo ekki vera og er sammála því að einkavæðing gömlu bankanna sé rót þessa vanda sem við stóðum frammi fyrir; og stöndum í raun enn frammi fyrir af því að málin eru ekki leyst.

Hvort hægt er að sætta pólitíkina í málinu með því að hafa þverpólitíska eftirlitsnefnd, ef ég hef skilið þingmanninn rétt, að hún verði eitthvert millistykki á milli Bankasýslunnar og fjármála- og efnahagsráðuneytisins auk fjárlaganefndar og efnahags- og viðskiptanefndar — ég veit það ekki. Það getur vel verið að þá sé hægt að ná sátt meðal þingmanna en þá stöndum við alltaf frammi fyrir þeirri grundvallarspurningu hvort armslengdin sé eftir sem áður til staðar, þ.e. sú sem við viljum reyna að ná. Telji einhver að það hafi mistekist eða ekki gengið nógu vel eftir, þá eigum við að laga það, þá eigum við ekki endilega að búa til eitthvað annað.

Ég vil frekar fjarlægja pólitíkina frá svona stóru og mikilvægu máli til að vinna traustið til baka. Ég held að það sé frekar styrkur gagnvart þjóðinni, þ.e. fyrir okkur þingmenn, hvað það varðar að öðlast traust, að við séum minna að skipta okkur af þessu og þetta sé frekar í höndum þar til bærra fagaðila. Þá er ekki heldur hægt að saka fólk um að það sé að ota sínum tota eða eitthvað slíkt. En hvort þetta ætti að vera eitthvert formlegt millistykki, ég er ekki alveg sannfærð.