144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[21:00]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Mig langar að staldra við orð þingmannsins og orðaskipti sem hér voru síðast að því er varðar traust. Ég held að það sé viðvarandi vandamál í íslenskum stjórnmálum, og það þarf svo sem ekki mig til að halda því fram, því að það hefur verið viðfangsefni okkar allt frá hruni.

Eins og kom fram í nefndaráliti minni hluta þegar frumvarp til laga um Bankasýslu ríkisins var hér til afgreiðslu töldu menn þá að krafan í samfélaginu væri um það að ráðherravald væri minnkað, að krafan í samfélaginu væri um það að draga úr ráðherravaldi.

Í þessu frumvarpi er lagt til af sama fólki að auka ráðherravald, að auka í raun og veru ráðherraræði. Í 8. gr. frumvarpsins kemur fram að gert sé ráð fyrir að ráðherra geti að eigin frumkvæði, eða að fenginni tillögu ráðgjafarnefndar, tekið ákvörðun um að hefja sölumeðferð einstakra eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Og hann skuli leita umsagnar ráðgjafarnefndarinnar. Hver skipar ráðgjafarnefndina? Það er hann sjálfur.

Við erum með nokkur dæmi frá núverandi ríkisstjórn um það hvernig hæstv. ráðherrar skipa í nefndir. Hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra skipaði í stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna eintóma sjálfstæðismenn. Hér erum við að tala um nefnd sem hæstv. fjármálaráðherra mundi skipa, og hvernig yrði hún skipuð? Telur þingmaðurinn að dregið hafi úr þeirri kröfu í samfélaginu um að ráðherravald verði minnkað? Mér finnst þetta frumvarp var algerlega til marks um að það sé rétt sem kemur fram að hæstv. fjármálaráðherra og ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar er úr tengslum við almenning í landinu.