144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[21:07]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er allt saman hárrétt sem hv. þingmaður fór yfir og í sjálfu sér er það alvarlegt mál þegar þeir stjórnarhættir eða ég leyfi mér að segja, getuleysi hæstv. ríkisstjórnar til að fara með mál og leiða mál farsællega til lausna er eins og dæmin sanna. En það eru samt kannski smámál sem hér voru talin upp í samanburði við það sem er að gerast á vinnumarkaði nú um stundir. Ábyrgðina á því má skrifa að stórum hluta á hæstv. ríkisstjórn sem hefur hagað sér þannig að fullkomið vantraust er og krafan um réttlæti verður háværari en henni er ekki svarað. Það er mjög alvarleg staða.

Þegar almenningur horfir upp á hæstv. ríkisstjórn færa ríkasta fólkinu í landinu húsnæðisbætur, atvinnuvegi sem býr við ofsagróða aukinn arð o.s.frv., en til að spara útgjöld í ríkissjóði skerðir kjör langtímaatvinnulausra, svo að við tökum nú dæmi, þegar þetta er borið saman, þessar aðgerðir ríkisstjórnarinnar þá er auðvitað ekki við góðu að búast. Ég vona að núverandi ríkisstjórn lifi ekki lengi og ég vona að hún klári ekki sín fjögur ár. Það er komið nóg og ég vona að þeir átti sig á því, forustumenn þessara stjórnarflokka, að svona stjórnarhættir ganga ekki.