144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[21:25]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Það má kannski velta því fyrir sér hvort sigurganga Framsóknar verði þannig að einn framsóknarmaður sitji hjá við afgreiðslu málsins í þinginu eins og var niðurstaðan með matarskattinn og þótti mönnum töluvert myndarlegt viðnám í þeirra herbúðum.

Ég vil aðeins staldra við ræðu hv. þingmanns Frosta Sigurjónssonar sem er sannarlega formaður efnahags- og viðskiptanefndar og það var greinilegt að hann hafði gírað sig hér upp í að taka við málinu og ráðherra hafði verið með annað plan eins og stundum gerist milli þessara flokka. Hann hafði verið með það plan að vísa málinu til fjárlaganefndar því þar er fólk sem er liprara í þeim efnum sem hér er lagt upp með.

Hv. þm. Frosti Sigurjónsson nefndi nokkur atriði sem hann fann frumvarpinu til foráttu. Í fyrsta lagi taldi hann að armslengdin væri ekki tryggð. Í öðru lagi taldi hann að ráðuneytið sem sæi um eftirlit gæti ekki líka fjallað um eignarhlutann, það væri óráðlegt. Í þriðja lagi taldi hann að það væri óráð að Ríkiskaup annaðist sölumeðferð eignarhluta. Í fjórða lagi sagði hann: Á að breyta því sem virkar? Í fimmta lagi sagði hann að gagnsæið yrði erfitt.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann telji að hægt sé að fara í gegnum þessi fimm atriði með breytingartillögum við fyrirliggjandi frumvarp öðruvísi en leggja beinlínis til að það verði fellt eins og það leggur sig.