144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[21:26]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er erfitt. Þá þyrfti í fyrsta lagi að koma málinu fyrir í öðru ráðuneyti eins og ráðuneyti viðskipta en síðan þyrfti líka að útbúa umgjörð um ráðgjafarnefndina sem skuldbindi ráðherrann til að fara eftir faglegum tillögum þar og tryggja þyrfti að tilnefning ráðgjafarnefndarinnar væri í höndum stjórnmálaflokka allra eða tryggja að tilnefningin kæmi úr háskólasamfélaginu eða með einhverjum öðrum hætti, þannig að það er flókið en þó ekki ógerlegt.

Ég verð að segja alveg eins og er, mér finnst það svolítið furðulegt að í frumvarpinu stendur að áfram muni hæstv. fjármálaráðherra gera efnahags- og viðskiptanefnd og fjárlaganefnd grein fyrir framgangi mála. Af hverju? Af hverju er málinu þá ekki vísað til efnahags- og viðskiptanefndar af hálfu fjármálaráðherrans? Hvers konar furðuleg framganga er það að meina efnahags- og viðskiptanefnd umræðu um þetta mál sem hefur haft með það að gera frá upphafi og hafði með það að gera fyrir jól að Bankasýslan fékk tímabundið framhaldslíf? Það er þá bara eðlilegra að skrifa efnahags- og viðskiptanefnd út úr frumvarpinu eins og það stendur.

Ég tel því að erfitt sé að koma málinu fyrir í höndum ráðuneytis og embættismanna í ráðuneyti en ég ítreka að það er ekki óhugsandi. Það er hins vegar óhugsandi að gera það í sama ráðuneyti og fer með eftirlit með fjármálamarkaðnum. Við höfum hrikalega reynslu af því. Og ég ítreka reynslusögu mína af því að vera fulltrúi ríkisins í stjórn banka og fá til athugasemda við mig embættismann úr sama ráðuneyti og fer með eftirlit með bankanum að öðru leyti. Það er fullkomlega fráleit staða að vera í og hér er verið að bjóða henni heim. Þó að hér séu höfð(Forseti hringir.) einhver almenn orð um að sinn embættismaðurinn hvor (Forseti hringir.) ... er fyrir því engin trygging og í öllu falli er það sami hausinn (Forseti hringir.)sem er á ráðuneytinu hvort eð er.