144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[21:29]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni svörin. Maður veltir því fyrir sér af því að hér hafa verið rædd mismunandi tildrög þessa máls og í orðaskiptum milli þingmanna hafa verið vangaveltur um þá staðreynd að hér er á ferðinni í raun og veru ein af númeruðum tillögum hagræðingarhópsins, sem vill svo skemmtilega til að er að uppistöðunni nefndarmenn í fjárlaganefnd. Ég tel sjálf hæpið að hæstv. fjármálaráðherra fari fram með mál bara til að uppfylla óskalista hagræðingarhópsins og að fremur sé hér um tiltekin og skilgreind pólitísk markmið að ræða sem sé kannski ekki öll að finna í greinargerð með frumvarpinu heldur þurfi kannski að leita dýpra til að sjá hið pólitíska samhengi í því sem hér er lagt fram. Það varðar ekki síst þá staðreynd að hér er verið að færa völd inn á ráðherraborðið, stór og mikilvæg verkefni, og þá staðreynd að hér er nánast eins og menn vilji láta eins og efnahagshrunið haustið 2008 hafi aldrei átt sér stað og þaðan af síður rannsóknarskýrsla Alþingis.

Þess vegna vil ég spyrja hv. þingmann hvort hann telji að pólitískum markmiðum fjármálaráðherra og Sjálfstæðisflokksins fyrst og fremst yrði náð með þeim breytingum sem hann nefndi að væri unnt að gera á frumvarpinu í samræmi við það sem hv. þm. Frosti Sigurjónsson hafði áhyggjur af, og þá kannski sérstaklega það sem hér er nefnt um að óhugsandi sé að eftirlit og eignarhluti sé í sama ráðuneytinu.