144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[21:31]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Auðvitað er það svo að hagræðingarhópurinn er hryggjarstykkið, höfuðið, maður veit ekki hvað maður á að kalla það, í fjárlaganefnd, allavega einhver grundvallarlíkamspartur af þeirri nefnd. En ég vil samt ekki ætla það að hæstv. fjármálaráðherra sé fyrst og fremst að elta þær tillögur einar út af fyrir sig. Hv. þingmaður spyr mig hvort ég telji að unnt sé að ná markmiðum ráðherrans með þeim breytingum sem ég þuldi upp að gæti mögulega verið hægt að gera til að gera málið boðlegt. Ég hef enga trú á því. Ég held að það geti ekki verið að málið sé svona andstyggilega útbúið og afneiti svona fullkomlega öllum grundvallarreglum um rétta stjórnarhætti nema vegna þess að það er sjálfstætt markmið hæstv. fjármálaráðherra að ryðja úr vegi öllum hindrunum í alvaldi hans til að ákveða hverjir fái að kaupa hvaða banka, hvenær, hvernig, undir hvaða kringumstæðum og á hvaða kjörum. Það er ekkert handfast um nein viðmið um sölu banka í frumvarpinu, enga skuldbindingu að finna nokkurs staðar. Hin handvalda ráðgjafarnefnd verður auðvitað hæstv. fjármálaráðherra jafn auðsveip og aðrar þær ráðgjafarnefndir sem hann hefur skipað af sínum félögum og vildarvinum.

Þess vegna held ég að það sé varhugavert að gera of lítið úr hættunni við þetta frumvarp. Ég held að hér sé um yfirvegaða atlögu að góðum stjórnarháttum að ræða og það sé einn af grunnþáttunum í helmingaskiptasamkomulaginu sem liggur að baki þessari hörmulegu ríkisstjórn og er ástæðan fyrir því að hún húkir hér við völd, rúin trausti, að það á eftir að gera það sem menn ætluðu sér að gera, sem var að skipta upp ríkiseignum milli vildarvina. Til þess var stofnað til þessa partýs og partýið stendur enn, hversu súrt og leiðinlegt sem það annars er fyrir þjóðina og aðra áhorfendur.