144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[21:40]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef frumvarpið er lesið þá er verið að lýsa, í greinargerð með því, almennum snakksjónarmiðum sem hafa eigi til grundvallar við sölu á eignarhlut í fjármálafyrirtækjum. Það er verið að taka burt hömlur við því að hæstv. fjármálaráðherra geti kosið að velja hv. þm. Helga Hjörvar til að kaupa banka á einhverjum þeim prís sem hæstv. fjármálaráðherra kýs. Auðvitað mun þurfa að láta stjórnarmeirihlutann kyngja því en meiri hluti þessara flokka kyngdi öðru eins hér á árum fyrr þegar bankasalan gekk yfir. Það stóð ekki í þingmeirihlutanum þá að afgreiða sölu með aðferðafræði sem var fullkomlega óboðleg og öskraði á allt réttsýnt fólk að ekki væri rétt með farið eins og við kaupin á Búnaðarbankanum.

Virðulegi forseti. Það er ósköp einfaldlega þannig að þegar lögbundin umgjörð er tekin burt og hæstv. fjármálaráðherra falið einhliða vald til þess að ákveða forsendurnar, ákveða þá sem eiga að fara með það að búa til forsendurnar — því hann velur þá, hann hefur farið sjálfur með vald sitt til að velja fólk með faglegum hætti, með þeim hætti sem ég lýsti hér í ræðu minni áðan — þá er eðlilegt að maður staldri við og spyrji spurninga.

Það er hæstv. fjármálaráðherra að útskýra hvers vegna það er hann sem kýs að brjóta samstöðuna um armslengdarsjónarmiðið, hvers vegna það er hann sem kýs að útiloka önnur stjórnmálaöfl frá aðkomu í þessu máli þvert á það sem ákveðið var í tíð síðustu ríkisstjórnar árið 2009 að ósk þáverandi stjórnarandstöðu; og hvers vegna hann kýs að hafa ekki tilnefningar sérfróðra aðila í ráðgjafarnefndina heldur skipa hana alla úr eigin vasa, af mönnum sem eru í hans eigin vasa.