144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[21:43]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Við ræðum meðferð og sölu eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Það hefur verið mjög fróðlegt að fylgjast með þeirri umræðu fyrir þá sem ekki eru í fjárlaganefnd eða efnahags- og viðskiptanefnd og ekki eins nálægt því málasviði og einhverju öðru í þinginu. Það hefur líka verið áhugavert að sjá hvernig sjálfstæðismenn eins og hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson taka að sér að verja það að leggja niður Bankasýsluna og færa þá viðkvæmu hluti sem eignarhlutir ríkisins í fjármálafyrirtækjum eru heim í hérað, getur maður sagt, heim til ráðherra. Það lýsir best hvernig Sjálfstæðisflokkurinn vill hafa hlutina, þeir eiga að vera sem næst þeim svo þeir geti haft pólitísk áhrif, virðist vera, því að ef lög um Bankasýsluna eru ómöguleg eins og þau eru í dag og skapa ekki fjarlægð frá pólitíkinni hefði maður ætlað að núverandi stjórnvöld mundu koma með eitthvað betra en þau, miðað við gagnrýni þeirra, en svo er ekki. Þau koma með eitthvað sem virðist langt frá því að uppfylla það að gerður sé greinarmunur á pólitískum afskiptum og umsýslu á eignarhlut í fjármálafyrirtækjum. Við þekkjum hvernig þeim málum var háttað fyrr á árum og mikil gagnrýni var á það ráðslag, hvernig helmingaskiptin voru milli Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins í fjármálakerfi landsins og hvernig staðið var að einkavæðingu bankanna á árunum eftir 2000, sem ég held að liggi algerlega fyrir í rannsóknarskýrslu ríkisins að hafi verið undanfari þess að fjármálakerfið lagðist á hliðina við hrunið.

Það má vel vera að Bankasýslan eigi ekki að vera eilífðarstofnun til framtíðar en manni sýnist að enn sem komið er sé mjög mikilvægt að hún haldi sjálfstæði sínu og beri ábyrgð á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum og hafi á sinni könnu umsýsluna ef til þess kemur að menn ætla sér að selja eignarhlut í einhverjum þeim banka sem ríkið á hlut í. Það þarf að vera hægt að treysta sjálfstæði Bankasýslunnar í þeim efnum. Í dag er valnefnd sem skipar í stjórn bankanna en nú á að leggja niður bæði valnefndina og Bankasýsluna og í hennar stað á að koma ráðgjafarnefnd sem ráðherra skipar í og síðan á hún að tilnefna beint í stjórn þeirrar fjármálastofnunar sem ríkið á fulltrúa í.

Ég verð að segja að þegar ég hlýddi á ræðu hv. þm. Frosta Sigurjónssonar var ég mjög ánægð með hve skynsamlega hann tjáði sig um þessi mál. Það væri mjög ánægjulegt ef fleiri framsóknarmenn, ég ætla ekki að segja hefðu þá skynsemi til að bera, því að auðvitað mega menn hafa misjafnar skoðanir á þeim málum sem öðrum þótt samflokksmenn séu, en mér fannst hv. þingmaður nálgast málið á mjög skynsamlegan og yfirvegaðan hátt. Hann vísaði til flokksþings framsóknarmanna, sem hefur oft verið til umræðu í þingsölum, en margt gerðist þar sem hefur ekki alveg orðið að veruleika eftir að menn skelltu hurðum að loknu flokksþingi. Á flokksþinginu var samþykkt að Bankasýslan mundi starfa áfram á sama hátt og hún gerir í dag, hefði með umsýslu eignarhlut ríkisins í fjármálafyrirtækjum að gera, og líka að Landsbankinn yrði ekki seldur heldur stefnt að því að gera hann að samfélagsbanka. Farið var ágætlega yfir það hversu miklum arði banki eins og Landsbankinn gæti skilað ríkinu og samfélaginu og að það hastaði ekkert að losa sig við stóran hlut í Landsbankanum, upp á 30%, eins og gert er ráð fyrir í ríkisfjármálaáætlun. Þess vegna er maður undrandi yfir því að menn komi með þetta mál hingað þegar þeir eru svona ósammála um innihald þess og ætli sér að láta þingið leysa ágreininginn á milli stjórnarflokkanna.

Ef mönnum hefur ekki tekist að lenda málinu án ágreinings innan stjórnarflokkanna, ætla þeir þá minni hlutanum á Alþingi að leysa þann ágreining fyrir sig? Mér fannst hv. þm. Frosti Sigurjónsson beina því til fjárlaganefndar að hún gerði það. Ég efast ekkert um að minni hluti fjárlaganefndar geti komið með lausn í málinu. Það er alveg hægt að hugsa sér ýmsar leiðir sem gætu bætt málið, nefnd hefur verið eftirlitsnefnd skipuð þverpólitískt til að hafa eftirlit með þeim málum. Það hlýtur að vera krafa almennings í landinu að við förum ekki í sömu hjólförin og á árum áður þar sem pólitísk fingraför voru alls staðar í fjármálageiranum, viðskiptalífinu og fyrirtækjum og helmingaskiptin voru ráðandi nær alls staðar í þjóðlífinu. Ég held að allir hugsi með hryllingi til þess tíma þegar Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn skiptu með sér völdum, ekki aðeins á þingi heldur alls staðar í samfélaginu þar sem þeir gátu komið því við. Sem betur fer eru tímarnir breyttir hvað þetta varðar, fólk fylgist með og sættir sig ekki við svona vinnubrögð, ef þessir flokkar ætla að fara að vinna ólýðræðislega, að ég tel, varðandi eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Það vantar allt gegnsæi og það vantar auðvitað hlutlaust eftirlit svo ekki sé hægt að segja að það sé ráðherra sem er með slík mál í fanginu. Það er enginn að segja að sá ráðherra sem er núna, hæstv. fjármálaráðherra, eða einhver annar sem tæki við mundi beita sér þannig. En það er ekki trúverðugt og ekki traustvekjandi að líta megi þannig á að menn geti mögulega misbeitt valdi sínu. Við viljum ekki sjá hlutina fara í það far. Þess vegna var ákveðið á sínum tíma að koma Bankasýslu ríkisins á koppinn. Ég tel að það hafi verið mjög skynsamlegt, menn horfðu til þeirra atburða sem ollu hruninu og til ýmissar gagnrýni sem kom fram í rannsóknarskýrslu Alþingis og drógu lærdóm af henni. Erum við komin það langt frá hruninu, það eru rétt tæp sjö ár síðan það varð, að við látum okkur engu varða þau varnaðarorð sem koma fram í rannsóknarskýrslunni um bankahrunið? Erum við virkilega komin á þann stað að það á bara að hrista það af sér og ana áfram: Ég má það, ég get það og ég ætla að gera það? Viljum við ekki reyna að vekja traust almennings jafnt í þeim málum sem öðrum og tryggja að sjálfstæðir aðilar, samanber Bankasýslan, fjalli um þau miklu verðmæti sem liggja í fjármálafyrirtækjum sem ríkið á í dag? Þetta eru verðmæti upp á 250–300 milljarða. Það eru engir smápeningar á ferðinni. Að tala um að það felist sparnaður í þessum gjörningi er auðvitað hjómið eitt því að í heildarsamhenginu, þegar mikið er undir, vegur það ekki þungt að sparast geti um 50 milljónir, sem ekki er útséð með vegna þess að auka þarf stöðu sérfræðinga í fjármálaráðuneytinu og ráðgjafarnefndin kostar sitt. Það er ekki útséð um hvað það getur kostað þegar upp er staðið svo að rökin um sparnað standast ekki.

Standast rökin um faglegan ávinning? Ég hef ekki heyrt í máli þeirra sem tala fyrir frumvarpinu að hægt sé að segja að faglegur ávinningur sé á ferðinni. Til hvers er þá vegferðin farin? Sjá menn enn þá ofsjónum yfir öllu sem var ákveðið að gera í tíð fyrri ríkisstjórnar? Eru menn virkilega enn þá að haka við: Við ætlum að henda þessu fyrir borð af því að þetta var ákvörðun og samþykkt fyrri stjórnvalda? Ég trúi varla að menn séu svo barnalegir en samt er aldrei að vita, því að eins og kom fram í máli hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar hafði hann horn í síðu Bankasýslunnar en styður svo þetta mál sem er langt frá því að hafa tærnar þar sem Bankasýslan hefur hælana. Miðað við þá gagnrýni sem kom fram á síðasta kjörtímabili, að ráðherra væri með puttana í ákvörðunartöku í kringum Bankasýsluna, hvað má þá segja um málið eins og það lítur út núna? Hvernig geta þeir staðið að þessu frumvarpi þegar ráðherra er í raun með allt málið algerlega í fanginu? Það er engin armslengd þarna á milli og ekkert sem greinir málin varðandi sjálfstæði ráðgjafarnefndarinnar sem slíkrar. Öll umgjörð í kringum hana er miklu veikari, ekkert sjálfstæði og ráðherra velur sjálfur þá aðila sem fara inn og þeir velja svo í stjórnir bankanna. Ég er ansi hrædd um að þetta verði ekki til fyrirmyndar og auki ekki traust þjóðarinnar á stjórnmálamönnum. Það getur vel verið að þetta flokkist undir það að vera löglegt en mér finnst það siðlaust.