144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[22:04]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Jú, mér finnst vera farið illa með dýrmætan tíma þingsins, við þekkjum það, og ekki eru margir dagar eftir af þessu þingi. Ef þingið á að vera einhver sáttasemjari fyrir ágreining milli stjórnarflokkanna, að búið sé að færa það hlutverk inn í þingið, þá finnst mér það vera orðið eitthvað öfugt hlutskipti sem við þingmenn höfum hér í dag.

Ég hlustaði á ræðu hv. þm. Frosta Sigurjónssonar þar sem hann lýsti því að Bankasýslan eins og hún starfar í dag, að starfsemi hennar hafi verið mjög farsæl og hún hafi annast vel samskipti ríkisins við fjármálafyrirtækin, sem við eigum eignarhlut í, þ.e. ríkið. Af hverju að taka eitthvað úr sambandi sem hefur virkað vel? Ég skil það bara ekki.