144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[22:15]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Já, ég tel að ráðgjafarnefndin sé ekki með það sjálfstæða hlutverk sem stjórn Bankasýslunnar hefur í dag. Það hefur verið rætt hér að veikari umbúnaður sé í kringum þá nefnd, bæði hvernig samskipti og boðleiðir eiga að vera við ráðherra og líka það að undir fjármálaráðuneytinu sé hvort tveggja, þ.e. lög um eftirlit með fjármálamarkaði, og líka umsýsluhlutverk ríkisins með eignarhlut í fjármálafyrirtækjum, að þetta tvennt eigi ekki saman, falli ekki saman undir sama ráðuneytinu, eftirlitshlutverk og umsjón eða ábyrgð ríkisins og þessa ráðuneytis og ráðherra með hlut ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

Þetta eitt og sér er alveg tilefni til þess að endurskoða þurfi framlagningu þessa frumvarps, að ekki er verið að bæta neinu faglega inn í þetta sem gerir málið betra. Ég tel að ráðgjafarnefndin sé hreinlega allt of veik og það sé ekkert að því að þau lög sem eru núna gildi áfram. Nefnt hefur verið að kannski væri hægt að bæta þetta með því að hafa eftirlitsnefnd, sem væri eftirlitsnefnd með ráðgjafarnefndinni og þá þeirri umsýslu sem þar færi fram, eftirlitsnefnd sem væri þá skipuð þverpólitískt til að (Forseti hringir.) eitthvert gagnsæi væri í því hvað væri að gerast í þessum málum.