144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[22:37]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég hef enga ástæðu til að ætla annað en að Bankasýsla ríkisins hafi skilað sínu hlutverki vel. Þar eru hæfir starfsmenn og þar er stjórn, en það er ekkert þannig að því megi ekki breyta. Mögulega er umfangið of mikið, eins og fram kemur í frumvarpinu, og það megi einfalda. Hér er verið að fella tvenn lög í ein lög og einhver sparnaður fylgir. Ég ætlaði ekki að ræða það hér í seinna andsvari, en við erum sammála því að armslengdin er mjög mikilvæg og við verðum að tryggja það hér í hinni þinglegu meðferð ef okkur sýnist svo. Ég ætla ekki að ákveða það fyrir fram hér. En varðandi sölu, ef og þegar til þess kemur, eins og kveðið er á um í frumvarpinu, langar mig að spyrja hvort hv. þingmaður sé sammála því að nýta eigi þá fjárhæð sem fyrir söluna fæst (Forseti hringir.) til að greiða niður þær skuldir sem til var stofnað við endurreisn fjármálastofnana.