144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[22:40]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum ræðuna. Mig langar aðeins að velta því upp, í ljósi umræðunnar í dag, að það er í sjálfu sér ekki að ástæðulausu sem við reynum að tala til framsóknarmanna. Formaður efnahags- og viðskiptanefndar var nánast á sama máli og við í stjórnarandstöðunni sem hér höfum talað.

Hann talar um að fyrirkomulagið sé farsælt, að ekki sé heppilegt að Ríkisendurskoðun taki við af Bankasýslunni með sölumeðferðina. Hann talar um að það sé ekki heppilegt að eitt og sama ráðuneytið sé með eftirlitið og framkvæmdina, og svo að veikari kröfur séu gerðar til ráðgjafarnefndarinnar en til dæmis er gert hjá Bankasýslunni í dag og valnefndarinnar sem þar er undir varðandi hæfi.

Samskipti (Forseti hringir.) á milli Bankasýslunnar, nefndarinnar og ráðuneytisins — sá ferill er í raun tekinn út úr þessu frumvarpi. Er ekki þingmaðurinn sammála mér um það að þetta þýðir að gegnsæið (Forseti hringir.) verður minna og traustið?