144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[22:43]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef ákveðna kenningu í þessu sambandi og það er kannski það sem reynslan hefur kennt okkur. Ég nefndi það hér fyrr í dag að hér er verið að færa vald undir ráðherra, taka það frá sértækri stofnun þar sem armslengdin er til staðar. Við erum með frumvarp hér inni sem felur í sér hækkun á bónusum í fjármálafyrirtækjum. Uppi eru hugmyndir um að fjölga seðlabankastjórum. Mér finnst allt leggjast á eitt hvað það varðar að menn séu að hrifsa til sín völd. Það er mjög hættulegt í mínum huga. Mér finnst sagan kenna okkur að þetta eru ekki bara hugarórar mínir eða annarra heldur hefur þetta því miður gerst.

Ég spyr þingmanninn hvort hún geti verið mér sammála um þetta. Ég spyr líka hvað hægt sé að gera til að koma í veg fyrir þetta. Í 8. gr. (Forseti hringir.) kemur að auki fram að ráðherra getur að eigin frumkvæði ákveðið að selja fjármálastofnanirnar, þannig að það leiðir allt að sama marki.