144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[22:57]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér meðferð og sölu eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum, frumvarp sem hæstv. fjármálaráðherra hefur lagt fram. Ég verð að segja það strax í upphafi að ég skil ekki af hverju frumvarpið er lagt fram. Þegar mál eru lögð fram í þinginu þá er yfirleitt verið að gera breytingar sem standa til bóta og það má líka velta því fyrir sér hvort tímabært sé að breyta því sem þarna er um að ræða.

Um er að ræða nýja stofnun til þess að gera. Hún var stofnuð eftir hrunið og eftir reynslu af fyrri einkavæðingu bankanna. Talið var mikilvægt að reyna að skapa traust varðandi meðferð ríkiseigna og skapa það sem kallað er armslengd, eða réttara sagt að búa til fyrirkomulag sem tryggði að stjórnmálamenn væru ekki að leika sér með eignir ríkisins sjálfum sér, vinum sínum eða öðrum vildarvinum til hagsbóta.

Þegar maður svo les frumvarpið veltir maður fyrir sér: Kannski er þetta afleiðing af því að þeir sem tóku við eftir síðustu kosningar hafa ítrekað sagt: Það voru kosningar. Þá athugasemd mátti skilja á þann veg að þá mættu menn gera ýmislegt, þeir sem komnir væru til valda og réðu. Eins og hv. þingmaður — gott ef það var ekki hæstv. fjármálaráðherra sjálfur — orðaði það: Meiri hlutinn ræður.

Stjórnarfarið á Íslandi er þannig að þar er ríkisstjórn við völd sem hlaut rétt um 50% atkvæða og stjórnarandstaðan litlu minna. Það er rétt, það er meiri hluti, en það er ekki góð stjórnsýsla sem gerir ráð fyrir að hægt sé að valta yfir þann minni hluta og taka ákvarðanir án þess að tekið sé tillit til þess að þingið er samsett af ólíkum hópum og ólíkum hagsmunum.

Með Bankasýslunni var búin til umgjörð, og menn geta haft hvaða skoðun sem er á því hvort stjórnmálamenn eigi að koma nálægt fyrirtækjum sem ríkið rekur. Við sem þá vorum í stjórnarmeirihluta aðhylltumst þá stefnu að reyna að skapa aukið traust, reyna að skapa aukna virðingu fyrir stjórnmálunum með því að búa til fjarlægð, með því að reyna að setja faglega stjórn yfir bankasýslu sem færi með eignarhlutinn í bönkunum og kæmi með tillögur og skipaði í stjórnir ríkisfyrirtækja í fjármálaheiminum.

Þetta var umgjörðin sem búin var til. Nú spyr maður: Af hverju er verið að breyta þessu núna? Hvað er það sem kallar á það? Rökin sem hér hafa verið færð fram eru sparnaður og að hagræðingarhópurinn hafi lagt fram tillögur og hafi þá væntanlega ráðið þessu. Þar er kannski um leið komin skýring á því af hverju þetta mál á að fara til hv. fjárlaganefndar en ekki til efnahags- og skattanefndar, því að forustumenn í hagræðingarhópnum eru líka í fjárlaganefndinni og menn ætla þá kannski að beita valdi til að koma þessu í gegn með látum. Þá spyr maður: Til hvers? Hvaða hagsmuna á að gæta? Eða er verið að forðast það hér að málið lendi í hv. efnahags- og skattanefnd? Þar er hv. þm. Frosti Sigurjónsson formaður en hann hefur lýst sig andvígan þessum hugmyndum. Hann átti um það tillögu á flokksþingi Framsóknarflokksins að Bankasýslan yrði ekki lögð niður, ef ég veit rétt, alla vega að það væri ekki tímabært.

Þegar maður skoðar þetta svo í samhengi við allt það sem gerst hefur síðan í kosningunum þá setur að manni óhug. Gagnstætt því sem íslensk stjórnvöld þurftu á að halda, Alþingi og ríkisstjórn, hafa menn verið að færa valdið aftur frá Alþingi og fyrst og fremst yfir til framkæmdarvaldsins. Hve oft skyldum við hafa heyrt stjórnarandstöðuna á síðasta kjörtímabili tala um framkvæmdarvaldið og ofríki þess, foringjaræðið og andstöðuna við þingræðið? En nánast allar nýjar stofnanir, allar ákvarðanir, eru meira og minna settar í farveg þar sem vildarvinir eða gæðingar taka við stjórninni. Það byrjaði með stjórn Ríkisútvarpsins. Það var stjórn lánasjóðsins. Við getum nefnt hvernig skipað var í alla hópa varðandi skuldaleiðréttinguna, allt í kringum það, á hvaða hátt menn voru ráðnir inn til aðstoðar og aðstoðarmönnum fjölgað mikið. Það er greinilegt að menn ætluðu að styrkja framkvæmdarvaldið, auka pólitíska valdið, auka ákvörðunartökuna í þágu flokkshagsmuna sem virðist hafa ráðið algjörlega frá þessum tíma.

Á sama tíma sögðu menn: Nú er sá tími kominn að við getum lagt sérstakan saksóknara af, hann er búinn að sinna hlutverki sínu, við þurfum ekki að hafa hann lengur. Og Bankasýslan fellur í sama flokk. Síðan er verið að skipa nefndir þar sem stjórnarfulltrúar koma einir að málum; stjórnarandstaðan er skipulega sniðgengin. Ef hún er með í ráðum, eða skipuð í hópa eins og verið hefur varðandi afnám gjaldeyrishafta, er hún sniðgengin vegna þess að hún gengur ekki í takt við ríkisstjórnina eða vill fá að ræða og skoða málin betur.

Í mínum huga er það gríðarlega misráðið að fara út í þessa breytingu og fullkomlega óþarft, það bætir bara á það vantraust sem við búum við í íslensku samfélagi, vantraust á ríkisstjórnina, ég tala nú ekki um á einstaka þingmenn sem hafa verið mikið í fjölmiðlum út af hreinum og beinum spillingamálum sem skvettir svo vantrausti yfir á alla aðra þingmenn. Við erum því miður í hópi stjórnmálamanna sem alltaf eru nefndir í einni kippu, sem einn hópur sem ber ábyrgð á því að valdið er fært til á þennan hátt.

Við höfum fengið frumvarp eftir frumvarp þar sem reiknað er með því að ákvörðunartaka verði færð frá Alþingi yfir til ráðherra. Við höfum oft bent á þetta, þetta er í mörgum tilfellum í smáu, t.d. í menntamálum. Einfalda hluti, eins og að ákveða lengd skólaársins eða taka aðrar ákvarðanir, sem alltaf hafa farið í gegnum þingið og samstarf er um, að ekki sé talað um staðsetningu stofnana eða eitthvað slíkt, færa menn bara valdið yfir til ráðherra og engar reglur eru um hvað eigi að gilda eða hvaða stefnu eigi að taka í þeim málaflokkum að öðru leyti. Þetta kemur fyrir aftur og aftur. Og síðan neitar hæstv. forsætisráðherra að svara spurningum hér í þinginu eða sinna þeim atriðum sem til hans er beint.

Sporin hræða og afstaða mín og Samfylkingarinnar í þessu máli mótast af því. Við erum að verja rétt Alþingis, hinna kjörnu fulltrúa, til þess að taka þátt í ákvörðunum af þeirri stærðargráðu sem hér er verið að fjalla um. Við getum farið yfir þetta. Í fyrsta lagi er umsýslan færð frá Bankasýslunni til hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra. Hann á að bera ábyrgðina á þessu ásamt öllu hinu. Í öðru lagi á hæstv. ráðherra að skipa ráðgjafarnefnd; án tilnefninga á hæstv. ráðherra að skipa ráðgjafarnefnd sem á að vera ráðherranum til ráðgjafar. Það á að hafa samráð við Alþingi, hvað þýðir það? Hver hefur reynslan verið af slíku samráði? Verður það kannski eins og í ESB-málinu? Í stjórnarsáttmálanum segir að leggja eigi fram skýrslu og ræða málið vel, hún var lögð fram en það átti aldrei að ræða hana; sem betur fer tókst okkur að hunsa þá tilraun hæstv. ríkisstjórnar.

Talað er um að skýrsla berist Alþingi eftir á, þ.e. þegar menn eru búnir að gera ákveðna hluti. Hver er reynslan af því? Við vorum að fjalla um skýrslu í dag þar sem stjórnarmeirihlutinn ákveður bara að ekki þurfi að skoða málið neitt frekar. Við erum að tala um eigendastefnu sem er mjög mikilvæg í sambandi við það hvernig farið er með eignir ríkisins. Eigendastefnuna á hæstv. ráðherra að setja. Ef við tækjum nú bara einn þátt málsins og segðum að áður en farið væri út í svona breytingu ættu menn að leggja fram eigendastefnu, ræða hana í þinginu og reyna að ná samstöðu um hana; ná samstöðu um það hvernig standa á að málum, hvernig fara á með eignarhlutana. Þegar búið væri að ákveða þá stefnu yrði umgjörðin sköpuð, hvernig fara ætti með þær eignir og núverandi fyrirkomulagi yrði breytt ef það teldist nauðsynlegt. Nei, það virðist vera einlægur ásetningur hæstv. ríkisstjórnar og hæstv. ráðherra að koma þessum völdum til ráðherra, losna við umfjöllun þingsins, losna við alla þessa lýðræðislegu umfjöllun, skapa hálfgert einræðisástand í sambandi við það hvernig farið er með slíka hluti. Við erum að tala um gríðarleg verðmæti.

Við skulum horfast í augu við hlutina þegar við lesum rannsóknarskýrslu Alþingis og skoðum hver reynslan var af þessu og hve stutt er síðan þetta var. Við erum að tala um umfjöllun 2000/2001, sölu bankanna 2002 sem var með allt öðrum hætti en rætt hafði verið þegar þingið tók ákvörðun um að heimila slíka sölu án nokkurra nákvæmra útfærslna á því hvernig ætti að standa að slíkri sölu. Síðan vitna menn í rannsóknarskýrslunni til þess að þingið hafi gefið grænt ljós, bara opið, þið megið gera hvað sem þið viljið, við erum búin að gefa grænt ljós. Ætlum við að gera þetta aftur? Við getum aldrei unnið traust þjóðarinnar ef við ætlum að hegða okkur með þeim hætti. Það er það sem er sorglegt fyrir okkur sem sitjum á þingi að við ætlum að hunsa þjóðina aftur og segja: Við tökum ekkert mark á því sem hér gerðist, við ætlum bara að fara í sama farið. Það er allt sem bendir til þess.

Þetta er fullkomlega óþarft frumvarp, algjörlega ótímabært. Nú er enginn að tala um að það þurfi að vera Bankasýsla um aldur og ævi. Við þurfum alla vega að hafa umgjörðina þannig að tryggt sé að ekki séu allir endar og spottar í málinu í sama ráðuneytinu undir stjórn sama hæstv. ráðherra.

Það sem gerir þetta mál svo enn skrýtnara er að annar stjórnarflokkurinn hefur tjáð sig mótfallinn mörgum þeim atriðum sem hér eru. Í fyrsta lagi varðandi það hvort yfir höfuð eigi að leggja Bankasýsluna niður. Í öðru lagi er hér verið að skapa umgjörð um að selja 30% hlut í Landsbankanum. Annar stjórnarflokkurinn, Framsóknarflokkurinn, hefur lýst andstöðu við það, þar liggur fyrir heil flokkssamþykkt. Ekki ætla ég þeim flokki að ætla að hunsa þá afstöðu síns flokksþings. Um hvað er þá verið að skapa ramma?

Við getum líka rætt það af hverju þetta fer til fjárlaganefndar. Er það ekki dæmigert fyrir það sem við höfum ítrekað verið að lenda í, þ.e. að menn hafa verið að velja nefndir til að komast hjá því að fara með mál til formanna ákveðinna nefnda og koma því þannig í farveg sem er líklegur til árangurs? Ítrekað hefur umhverfis- og samgöngunefnd verið hunsuð þó að verið sé að fjalla um umhverfis- og skipulagsmál og málefni sveitarfélagsins þá er það allt sent til hv. allsherjar- og menntamálanefndar.

Nú kemur mál frá hinum fræga hagræðingarhópi. Takið eftir því, hagræðingarhópurinn gerði 120 tillögur, sem eru bara eins og óskalisti út í loftið, sem hafa aldrei komið til umræðu í þinginu. Það hefur aldrei komið til umræðu. Hvaða tillögum ætla menn að hrinda í framkvæmd? Jú, menn gera það með einstökum málum. Gott og vel. Þá kemur það sem röksemd að hagræðingarhópurinn hafi lagt það til. Af þessum 110 til 120 tillögum voru 80 til 90 á borðum fyrrverandi ríkisstjórnar og ríkisstjórnarinnar þar á undan en þær fóru aldrei í gegn vegna þess að þær voru arfavitlausar og vondar. Þannig að aumasta röksemdin er að nota hagræðingarhópinn sem rök, þetta eru minnislistar sem hafa verið unnir af embættismönnum vegna þess að þeir hafi verið beðnir um það en hafa ekki sætt neinni sérstakri skoðun. Þetta er svoleiðis mál.

Ég ætla að vona að við séum ekki að bæta á vondar ákvarðanir ríkisstjórnar sem sendir þau skilaboð út í samfélagið að spilling sé í lagi, að pólitísk fyrirgreiðsla sé í lagi, að við eigum bara að sætta okkur við það að við búum við stjórnarfar sem ekki yrði viðurkennt í löndunum hér í kringum okkur, á Norðurlöndunum eða í öðrum löndum sem við viljum bera okkur saman við. Ég hef ekki mikinn áhuga á að vera þátttakandi í þessum leik. Ég skora á nýju þingmennina sem komu hér til þings að láta þetta (Forseti hringir.) ekki verða leikreglurnar hjá núverandi Alþingi.