144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[23:14]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, við erum sammála um það, ég og hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir, að þetta snýst um traust og trúverðugleika. Þetta snýst um að gefa þau skilaboð að við viljum gera allt sem við getum til þess að tryggja að hlutirnir séu unnir á faglegan og gagnsæjan hátt en ekki sé hætta á því að flokkspólitísk áhrif séu þar í gangi.

Ég deili líka áhyggjum hv. þingmanns hvað það varðar að margt bendir til þess að allt sé að fara í sama farið. Margt af því sem við töluðum fjálglega um að mætti aldrei gerast aftur virðast menn vera að leyfa sér að láta gerast aftur. Hverjar verða afleiðingarnar af því? Ég hef miklar áhyggjur af því.

Tökum sem dæmi þegar verið var að fjalla um fjármálaráðuneytið. Fyrrverandi ríkisstjórn hafði þá áhyggjur af því að þjóðhagsspá væri unnin í fjármálaráðuneytinu. Hún var færð út í sérstaka deild til þess að tryggja að fjallað væri um þetta á tveimur stöðum til að umfjöllun yrði vandaðri. Hér er, nákvæmlega eins og hv. þingmaður segir, verið að færa eftirlit, umsjón með ákvörðunum og allt undir einn hatt, undir Ríkiskaup eða hvað það heitir. Hver á svo að sjá um söluna? Það heyrir líka undir sama ráðuneyti. Það er allt á einni hendi í þessu. Hvernig eigum við að skapa trúverðugleika á sama tíma og við sitjum undir mjög harðri gagnrýni vegna ákvarðana sem tengjast fjölskyldu viðkomandi ráðherra o.s.frv., sem er nógu erfitt og getur verið mjög ómaklegt. En það verður ekki til að minnka þá tortryggni að bæta þessu við.