144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[23:23]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum svarið. Ég hef rætt svolítið í dag og velt því upp hvers vegna Bankasýslan var stofnuð, mér finnst mikilvægt að við höldum því til haga. Það er auðvitað út af einkavæðingunni sem varð hér á bönkunum. Endurreisnin hefur tekið lengri tíma en við ætluðum og þess vegna tek ég undir að við eigum að veita þær milljónir sem þarf til að reka þetta á þennan hátt. Það hefur verið farsælt fyrirkomulag að mestu. Við erum að tala um 250–300 milljarða eign sem við fáum tugi milljóna í arðgreiðslu af á ári, þannig að ég held að þetta eigi að fá að halda sér.

Mér finnst framkvæmdarvaldið vera að taka til sín mikil völd. Við erum með frumvarp sem gerir ráð fyrir hækkun bónusa hjá fjármálafyrirtækjum, við höfum heyrt umræður um fjölgun seðlabankastjóra og mér finnst þetta bera keim af (Forseti hringir.) því gamla sem varð til þess að fjármálakerfið hrundi. (Forseti hringir.) Mér finnst allt stefna í sömu átt.