144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[23:25]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér gafst á sínum tíma og hefur gegnum árin gefist tími til að fylgjast mjög vel með því sem hefur gerst á áratugnum frá því að bankarnir voru einkavæddir. Ég þekkti ágætlega til og fylgdist vel með því og einnig hvernig framhaldið þróaðist og hvernig við lentum í þeim ósköpum sem hrunið er.

Ég hefði svarið þegar ég bauð mig fram árið 2007, þá hafði bankahrunið ekki orðið, við vorum hér á sviðinu þá, að þetta mundi aldrei gerast aftur. Ég er mjög í vafa í dag. Mér finnst allt benda til þess að menn ætli ekkert að læra af því. Það er enn þá verið að tala um helmingaskipti. Og núna þegar ríkisstjórnin er orðin svona ósamstiga og tveir flokkar berjast um að vera hér við völd, án þess að samstaða sé um nokkurn einasta hlut, er það versta sem getur gerst að þeir sameinist um völdin og fari að skipta á milli sín því sem er til skiptanna. Guð forði okkur frá því, svo ég noti frægar tilvitnanir. Það er ekki það sem við viljum (Forseti hringir.) og það er ekki það sem má gerast. Ég ætla að vona að ég sé ekki forspár hvað þetta varðar en það er akkúrat það sem ég óttast mest.